Sea background
Haffræði

Sá sjór sem streymir inn í Eyjafjörð á að öllu jöfnu uppruna sinn í Irmingerstraumi sem er angi af Golfstraumnum eða Norður-Atlantshafsstraumnum eins og Golfstraumurinn nefnist eftir að hann yfirgefur strönd Bandaríkjanna út af Þorskhöfða (Cape Cod). Irmingerstraumurinn flytur með sér Atlantssjó, sem er tiltölulega saltur og hlýr, meðfram Vesturlandi.

Út af Breiðafirði skiptist hann í tvær greinar og heldur sú stærri yfir Grænlandshaf í átt til Grænlands og streymir síðan til suðurs úti fyrir grænlenska landgrunninu. Minni grein heldur áfram til norðurs meðfram Vestfjörðum inn á norðurmið og streymir þar yfir landgrunninu til austurs. Á leið sinni meðfram landinu blandast sjórinn ferskvatni frá landi og seltan minnkar, einkum næst landi. Sjórinn kólnar einnig smám saman á leið sinni hingað. Út af Eyjafirði hefur Atlantssjórinn að miklu leyti tapað sínum upprunalegu eiginleikum með blöndun við ferskari sjó og kælingu.

Stundum bregður svo við að kaldur og seltulítill pólsjór sem á uppruna sinn í Norður – Íshafi, berst í miklu magni inn á íslenska landgrunnið úti fyrir Vestfjörðum og streymir síðan til austurs meðfram landinu. Þessi sjór flytur með sér hafís en hann hefur löngum þótt hinn versti vágestur við Ísland, enda fylgir honum köld veðrátta til lands og sjávar.

Hann sást ekki svo orð væri á gerandi eftir 1920 fyrr en hann fyllti alla firði og flóa fyrir Norðurlandi vorið 1965, þ.m.t. Eyjafjörð. Síðan var hann árlegur gestur við Norðurland og reyndar víðar við landið fram til 1970 en eftir það hefur frekar lítið til hans sést.

Steingrímur Jónsson

eyjafjordur ur lofti 1 20111114 1053323168 Eyjafjörður úr lofti (mynd Eyjólfur Guðmundsson) Eyjafjörður úr lofti (mynd Eyjólfur Guðmundsson)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal