Sea background
Lega og stærð

Eyjafjörður liggur fyrir miðju Norðurlandi á 18°20´V. Lengst til suðurs nær hann á 65°40´N og mynni hans er á 66°10´N. Ef dregin er bein lína frá botni fjarðarins og út í mitt mynnið er stefna hennar um 20° vestan við norður.

Eyjafjörður er einn af lengstu fjörðum landsins og eru um 60 km frá botni fjarðarins og út að mynni hans. Við Oddeyri er hann tæplega einn km á breidd en við mynnið er breiddin orðin 20 km ef miðað er við 66°10´N, en frá GjögurtáSiglunesi eru um 24 km. Það má í raun skipta firðinum í tvo hluta, innri hluta frá botni og út að Grenivík og ytri hluta þar fyrir utan. Er innri hlutinn töluvert mjórri en sá ytri. Flatarmál fjarðarins frá botni að 66°10´N er 350 km2.

Eyjafjörður er ekki vogskorinn en þó ganga tveir firðir, Ólafsfjörður og Héðinsfjörður, inn úr honum utarlega vestanmegin. Þeir eru báðir grunnir og tiltölulega víðir. Fyrir botni beggja eru nokkuð stór stöðuvötn, Ólafsfjarðarvatn og Héðinsfjarðarvatn. Utar á Tröllaskaga gengur síðan Siglufjörður inn í skagann, og er hann um átta km langur. Í mynni hans er þröskuldur um 25 m djúpur en mesta dýpi þar fyrir innan er um 40 m.

Hrísey er eina eyjan á firðinum og er hún önnur stærsta eyja við Ísland, 8 km2 að flatarmáli. Hún er 7 km löng og 2,5 km breið við suðurendann þar sem hún er breiðust en mjókkar síðan til norðurs. Um sjö km norðan við Hrísey liggur Hrólfssker, lítill klettur sem skagar nokkra metra upp úr sjó en yfir hann gefur ef eitthvað hvessir að ráði. Þar er viti. Milli Hríseyjar og Hrólfsskers er mesta dýpi um 130 m en þar er einnig skerið Lönguboði sem nær upp á 12 m dýpi.

Ýmis sker og boðar eru meðfram ströndinni, t.d Nunnuhólmi sunnan Skjaldarvíkur og Hóll rétt fyrir utan höfnina á Hauganesi sem skagar upp á 3 m dýpi þar sem annars er um 15 m dýpi.

Steingrímur Jónsson

eyjafj depth 1 20111114 1495024077

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal