Sea background
Straumar og sjávarföll

Straumar í Eyjafirði voru kannaðir sumarið 1992, meðal annars með straummælum beggja vegna fjarðarmynnisins, þar sem dýpið er 105 m.

Mælar sem mæla straumhraða og stefnu voru settir á 15 og 85 m dýpi og látnir vera þar frá miðjum júlí til loka ágústmánaðar. Mælingar staðfestu að innstreymi í fjörðinn á sér stað vestanmegin en útstreymið austanmegin (sjá mynd til hægri).

Ástæðan fyrir þessu er sú að á hafstrauma virkar svokallaður Corioliskraftur (svigkraftur) sem hefur þau áhrif á norðurhveli jarðar að sveigja allt sem hreyfist til hægri við hreyfistefnuna. Hann á rætur að rekja til snúnings jarðar um möndul sinn.

Irmingerstraumurinn sem fellur austur með Norðurlandi, leitar því vestanmegin inn í firði og flóa. Selturíkur sjór sem þarna kemur inn virðist að öllu jöfnu halda sig vestanmegin inn allan fjörðinn og einskonar hringstreymi myndast. Þetta sést af því að jafnseltulínur liggja mjög oft langsum eftir firðinum (sjá mynd til hægri). Sjór sem streymir inn að vestanverðu heldur sig vestanmegin þar sem seltan er tiltölulega mikil en á leið sinni blandast hann ferskvatni frá ánum og seltan minnkar þar til sjórinn að lokum streymir út að austanverðu.

Eitt dæmi um þessa hringrás sem margir þekkja eflaust og auðvelt er að sjá með berum augum, er þegar leysingar verða á vorin og Eyjafjarðaráin streymir mórauð inn í Pollinn. Þá sveigir hún strax til austurs eða til hægri við hreyfistefnuna og síðan má sjá mórauðan taum marga kílómetra út eftir firðinum á tiltölulega mjóu belti uppi við land.

Sjávarfalla gætir minna í Eyjafirði en víðast annars staðar við landið og er hæðarmunur flóðs og fjöru í meðalstórstreymi við Akureyri 1,3 m og í meðalsmástreymi 0,6 m. Sjávarfallastraumar eru því frekar veikir.

Steingrímur Jónsson

straumvektor 1 20111114 1055394121 Straummælingar á 85 m dýpi sitt hvoru megin í mynni fjarðarins. Ferlarnir sýna hraða og stefnu straumanna. Straumarnir eru inn fjörðinn vestanmegin (blár ferill) og út fjörðinn austanmegin (rauð lína). Hver gulur punktur táknar upphaf nýs dags (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni). Straummælingar á 85 m dýpi sitt hvoru megin í mynni fjarðarins. Ferlarnir sýna hraða og stefnu straumanna. Straumarnir eru inn fjörðinn vestanmegin (blár ferill) og út fjörðinn austanmegin (rauð lína). Hver gulur punktur táknar upphaf nýs dags (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni).

eyjafjordur seltudreifing 1 20111114 1693938385 Jafnseltulínur á 5 metra dýpi í júní 1992. Sjórinn er ferskari austan megin (grænt og gult) (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni). Jafnseltulínur á 5 metra dýpi í júní 1992. Sjórinn er ferskari austan megin (grænt og gult) (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni).

  


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal