Sea background
Uppsjórinn

Uppsjórinn nær í raun yfir allan vatnsmassann frá yfirborði og niður að botni. Botninn sjálfur er ekki meðtalinn. Þar er að finna aragrúa lífvera af ýmsum stærðum og gerðum og er svifið undirstaða fæðukeðjunnar þar.

Svif greinist frá öðrum sjávarlífverum á því að það lifir í vatnsmassanum, yfirleitt í efri lögum sjávar, og hefur litla hreyfigetu. Það er því mjög háð hafstraumum. Flestar sviflífverur eru örsmáar og sjást illa eða ekki með berum augum. Þó eru einnig til hópar stórra svifdýra t.d. marglyttur.

Svifið skiptist í tvo meginhópa: Svifþörunga eða plöntusvif sem getur ljóstillífað og nýtt geisla sólar til að framleiða lífræn efni úr ólífrænum, og dýrasvif sem þarf að afla sér lífrænna efna með því að nýta aðrar lífverur sér til matar.

Dýrasvifið samanstendur af ýmsum dýrahópum, svo sem krabbadýrum, holdýrum og kambhveljum, en einnig lirfum fjölmargra botndýra og fisktegunda. Almennt séð eru krabbaflærnar líklega fjölliðaðasti hópurinn.

Dýrasvifið nærist að megninu til á svifþörungum, eða öðru dýrasvifi og er sjálft meginfæða margra annarra dýrahópa, allt frá loðnu til steypireyðar. Það „flytur“ því frumframleiðslu svifþörunga ofar í fæðukeðjuna til dýra sem ekki geta nýtt svifþörungana beint.

Árin 1992 og 1993 fóru fram viðamiklar rannsóknir á svifi í Eyjafirði. Þar fundust um 48 tegundir eða hópar svifdýra og þar af 28 tegundir heilsvifs, en það eru lífverur sem eru allan sinn æviferil í svifinu. Hinar eru hlutasvif.

Stærri dýrin í uppsjónum, sem geta þá synt á móti straumum, eru kölluð sunddýr. Þetta eru fiskar, smokkfiskar og sjávarspendýr. Ýmsar tegundir smokkfiska hafa fundist í Eyjafirði, þar á meðal risasmokkfiskurinn. Smokkfiskarnir eru hins vegar ekki algengir þar. Margar tegundir fiska og nokkrar tegundir hvala finnast í Eyjafirði. Helsti uppsjávarfiskurinn þar er síldin en helstu botnfiskarnir eru þorskur og ýsa.

HV

dyrasvif-1-bjarni eiriksson Aragrúi af örlitlum svifdýrum (Mynd: Bjarni Eiríksson) Aragrúi af örlitlum svifdýrum (Mynd: Bjarni Eiríksson)

svifdyr Nokkur algeng svifdýr í Eyjafirði - Heilsvif: 1. Þorndís séð að ofan, 2. Rauðáta séð frá hlið, 3. Sviflæg marfló, 4. Pílormur, 5. Rekhyrna, 6. Rekkringla - Hálfsvif: 7. Lirfa hrúðurkarls, 8. Lirfa slöngustjörnu, 9. Loðnulirfa, 10. Þorsklirfa. (Mynd: Kristín Líf Valtýsdóttir) Nokkur algeng svifdýr í Eyjafirði - Heilsvif: 1. Þorndís séð að ofan, 2. Rauðáta séð frá hlið, 3. Sviflæg marfló, 4. Pílormur, 5. Rekhyrna, 6. Rekkringla - Hálfsvif: 7. Lirfa hrúðurkarls, 8. Lirfa slöngustjörnu, 9. Loðnulirfa, 10. Þorsklirfa. (Mynd: Kristín Líf Valtýsdóttir)

 

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal