Sea background
Svifþörungar

Svifþörungarnir (einnig kallaðir plöntusvif) eru flestir einfrumungar og sjást því ekki með berum augum. Þeir eru hinsvegar alls staðar í hafinu og eru, þrátt fyrir smæð sína, undirstaða fæðukeðjunnar þar. Þeir þjóna því sama hlutverki og gras og aðrar plöntur á landi.

Svifþörungar þurfa, eins og plöntur á landi, einungis birtu og nokkur næringarefni (t.d. fosföt og nítröt) til ljóstillífunar. Við ljóstillífun búa þeir í raun til eigin fæðu, þ.e. framleiða lífræn efnasambönd úr ólífrænum. Dýr geta þetta ekki og þurfa því að ná í fæðu með því að éta plöntur, þörunga eða önnur dýr. Lífrænu efnasamböndin sem þörungarnir framleiða eru þ.a.l. grunnurinn að flestu öðru lífi í sjónum. Einungis er næg birta í efstu 10–50 metrunum til ljóstillífunar og þurfa þeir því að halda sig þar.

Botnþörungar líkjast landplöntum meira, enda fjölfrumungar. Þá er einungis að finna á mjóu belti meðfram ströndum þar sem nóg sólarljós nær niður á botninn, yfirleitt ekki neðar en á um 20 metra dýpi. Heildarframleiðni þeirra er því mun minni en svifþörunganna sem finnast á miklu víðáttumeira svæði. Botnþörungana þekkjum við betur sem þara og þang.

Algengustu svifþörungarnir við Ísland eru af flokkum kísilþörunga (diatoms) og skoruþörunga (dinoflagellates). Meginmunurinn á þessum tveimur flokkum er sá að ytri stoðgrind kísilþörunga er úr kísli, en úr kítíni hjá skoruþörungum. Kísilþörungar geta ekki hreyft sig og berast því bara með straumnum, einnig mynda þeir oft keðjur. Skoruþörungar eru hinsvegar með svipur sem þeir nota til að synda með, þeir eru líka meiri einstaklingshyggjuþörungar og mynda sjaldan keðjur.

Nokkrar aðrar gerðir þörunga finnast í Eyjafirði en þeir eru mjög smávaxnir og ekki áberandi. Helst ber þó að nefna kalksvifþörunga (Haptophyceae) en þeir geta við ákveðnar aðstæður fjölgað sér gríðarlega mikið og getur sjórinn þá orðið mjólkurhvítur á stórum svæðum, séð frá gervihnöttum. Vart hefur orðið við slíkt í úthafinu hér norðan við land.

HV

Chaetoceros_sp Kísilþörungur, Chaetoceros sp. (mynd Friðbjörn Möller) Kísilþörungur, Chaetoceros sp. (mynd Friðbjörn Möller)

Cylindrotheca_closterium Skoruþörungurinn Cylindrotheca closterium (mynd Friðbjörn Möller) Skoruþörungurinn Cylindrotheca closterium (mynd Friðbjörn Möller)

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal