Sea background
Fiskar

Fiskum má í stórum dráttum skipta í 4 flokka eftir því hvað þeir éta. Til eru fiskar sem eru jurtaætur, en engin slík tegund finnst hér við land.

Algengustu tegundirnar eru flestar svifætur. Fjölliðaðastir eru uppsjávarfiskarnir, til dæmis loðna og síld sem éta aðallega krabbaflær. Aðrar algengar tegundir eru karfar, kolmunni og síli. Þær éta aðallega ljósátu en einnig annað svif og jafnvel botndýr. Þessir fiskar eru margir hverjir mikilvæg fæða annarra stærri fiska.

Aðrar tegundir eru botndýraætur, s.s. ýsa, steinbítur, skötur og flatfiskar. Þessir fiskar éta þó einnig minni fiska svo sem loðnu og síli þegar þau eru til staðar.

Ofar í fæðukeðjunni eru ránfiskarnir, þ.e. fiskar sem éta aðra fiska. þorskurinn er algengastur í hlýrri sjó og grálúða og hákarl í kalda sjónum. Margir þorskfiskar, svo sem ufsi, lýsa og langa, tilheyra þessum flokki, en einnig lúða, skötuselur og háfur. Í flestum tilvikum éta þessir fiskar svif eða litla hryggleysingja þegar þeir eru ungir en skipta yfir í fiskát á eldri árum.

Um það bil 340 tegundir fiska hafa fundist á Íslandsmiðum, þar af hafa 62 fundist í Eyjafirði. Ástæður þess að ekki hafa fleiri fiskar fundist í Firðinum eru að mjög margir fiskanna eru úthafs- eða djúpsjávarfiskar og sjást því ekki inni á fjörðum og flóum landsins.

Sé einungis horft á grunnsjávarfiska er fiskalífið í Eyjafirði í raun auðugt. Norðurland er á mörkum kuldabeltisins og kaldtempraða beltisins og finnast þar fiskar frá báðum beltum. Ískóð, mjórar hákarl og grálúða eru meðal fiska sem einkenna kalda sjóinn og makríll, keila, vogmær og skötuselur koma að sunnan úr hlýrri sjó. Þessir fiskar eru ekki algengir í Eyjafirði og í mörgum tilvikum bara flækingar. Aðstæður í hafinu hérna eru of sveiflukenndar til þess að þeir geti hafst við hér til langframa.

Nokkrar tegundir þrífast þó hvergi betur en þar sem þessir tveir heimar mætast, hinn kaldi og hlýi. Þetta eru fiskarnir sem algengastir eru í Eyjafirði og má því ganga að þeim vísum hér. Sjórinn undan Norðurlandi er sérlega mikilvægur í lífsferli margra helstu nytjafiska okkar. Firðir og flóar þar eru mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir þorsk, ýsu, ufsa, síld og hrognkelsi, auk þess sem loðnuseiði eru í uppsjónum. Stærstu hrygningarstöðvar flestra þessara tegunda eru við Suður- og Vesturland en lirfurnar (sem síðan breytast í seiði) berast norður fyrir land með straumum. Aðrar algengar tegundir í Firðinum eru gullkarfi, tindaskata, skrápflúra, sandkoli og skarkoli.

HV

fiskar 2 20111012 1239527976 Ýsa (Mynd: Erlendur Bogason) Ýsa (Mynd: Erlendur Bogason)

fiskar 14 20111012 1787511693 Skötuselur (Mynd: Erlendur Bogason) Skötuselur (Mynd: Erlendur Bogason)

fiskar 10 20111012 1170259728 Hlýri (Mynd: Erlendur Bogason) Hlýri (Mynd: Erlendur Bogason)

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal