Sea background
Uppsjávarfiskar

Til uppsjávarfiska teljast sumar að algengustu fiskategundum heimsins. Í hlýrri höfum eru það ansjósur, sardínur, á kaldari slóðum síldar og loðna en þar á milli brynstirtlur, kolmunnar og makrílar. Einkenni margra þessara stofna eru miklar göngur og oft dramatískar breytingar á útbreiðslu eftir umhverfisaðstæðum. Það verðum við mjög áberandi vör við hér á landi.

Nýtanlegar uppsjávartegundir eru í raun frekar fáar hér við land, en gefa sum ár meiri afla en aðrar fisktegundir samanlagt. Algengustu tegundirnar eru fremur smáir fiskar, en í uppsjónum er þó einnig að finna ýmsar stórar tegundir svo sem túnfiska, sverðfiska, vogmær og guðlax. Litlu tegundirnar lifa að mestu leiti á dýrasvifi en þær stærri á þeim minni ásamt smokkfiski.

Hér við land er loðnu (Mallotus villosus), síld (Clupea harengus) og stundum kolmunna (Micromesistius poutassou) og makríl (Scomber scombrus) að finna í gríðarlegu magni en nokkra aðrar finnast annað slagið er þær flækjast hingað úr suðlægari höfum. Einnig eru margar aðrar uppsjávarfiskategundir að finna við Ísland, en annaðhvort komast þær ekki nálægt því að vera eins algeng og síldin, loðnan, makríllinn og kolmunninn, eða þær eru mjög smáar. Í Eyjafirði er síld að staðaldri, en loðnuseiði eru algeng í svifinu á vorin og sumrin. Fullorðin loðna heldur sig heldur sig að mestu í úthafinu norðan við landið. Yfir hrygningartímann heldur kynþroska fiskurinn suður fyrir land að hrygna en alltaf kemur þó einhver slæðingur inn á norðlenska firði og flóa til hrygningar. Makríll og kolmunni eru miklir farfiskar og sjást stundum í Firðinum en alls ekki árlega.

Nokkrar aðrar uppsjávartegundir hafa fundist í Eyjafirði, en allar eru þær gestir hér. Af stærri tegundum hafa hér fundist stóri földungur (Alepisaurus ferox), vogmær (Trachipterus arcticus) og guðlax (Lampris guttatus), sérstaklega fundust margar vogmeyjar árið 2009. Vogmær og guðlax eru mjög sérstakir í útliti en gjörólíkir þótt skyldir séu. Guðlaxinn er stór, hár og skrautlega litur fiskur. Vogmærin er langvaxin, þunn, silfurgljáandi og með eldrauða ugga. Stóri földungur er óskyldur hinum en sérstakur að því leyti að hann er langur og mjór, með langt trýni og flugbeittar tennur og gríðarstóran bakugga.

Af miðlungsstórum tegundum hafa hér fundist brynstirtla (Trachurus trachurus) augnsíld (Alosa fallax), stór náfrænka síldarinnar, stóri gullax (Argentina silus) og gráröndungur (Chelon labrosus). Geirsíli af 3 tegundum hafa fundist í hafinu norðan við fjörðinn og hafa kannski flækst hér inn, þessar tegundir eru litla (Arctozenus rissa), stóra (Paralepis coregonoides) og digra geirsíli (Magnisudis atlantica).

Minnstu uppsjávarfiskana er að finna miðsævis í úthafinu, í Eyjafirði hafa fundist norræna gulldepla (Maurolicus mulleri) og laxsíldir. Laxsíldirnar voru ekki greindar til tegunda en líklega var um íslaxsíldir (Benthosema glaciale) og fenrislaxsíldir (Lampanyctus crocodilus) að ræða því báðar þessar tegundir finnast í hafinu norðan við fjörðinn. Þetta eru sérlega smávaxnir fiskar og gætu því hugsanlega verið í talsverðu magni í uppsjó án þess að menn verði þeirra varir. Þeir eru einnig sérstakir vegna þess að þeir eru alsettir litlum ljósfærum.

makrill 1 20120108 1332506523 Makríll Makríll

fiskar 1 20111115 1043725272 Vogmær (mynd Tryggvi Sveinsson) Vogmær (mynd Tryggvi Sveinsson)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal