Sea background
Flatfiskar

Helsta einkenni flatfiska er, eins og nafnið gefur til kynna, að þeir eru flatir. Allt í lífríkinu hefur sinn tilgang og er þessi líkamslögun aðlögun að því að lifa við botninn. Flatfiskar eru algengastir á sléttum og mjúkum botni þar sem þeir fela sig fyrir afræningjum, eða liggja í leyni fyrir bráð. Fæða flatfiska er að öllu jöfnu ýmsir botnhryggleysingjar. Lúðan er undantekning á þessari reglu því hún eru eindreginn ránfiskur. Tólf flatfiskategundir hafa fundist hér við land og hefur meirihluti þeirra fundist í Eyjafirði.

Skarkolinn er einnig kallaður rauðspretta, vegna rauðra (eða svartra) bletta á bakinu. Hann var lengi vel okkar mikilvægasta flatfisktegund, en nú hefur grálúðan leyst hann af hólmi. Skarkolinn er nokkuð algengur allt í kringum landið, þar með talið í Eyjafirði. Yngri fiskurinn er einna mest á grunnslóð á sand- eða leirbotni en eldri fiskurinn heldur sig dýpra utan hrygningartímans.

Sandkolinn líkist mjög skarkolanum en er ekki með eins áberandi bletti á bakinu. Auðveldast er þó að greina þá á því að sandkolinn er með greinilegt hreistur og því hrjúfur eins og sandpappír. Sandkolinn finnst um allan Eyjafjörð en er algjör grunnsævisfiskur og finnst varla neðan við 40 m dýpi. Ef flatfiskur er veiddur af bryggjum Eyjafjarðar eru meiri en minni líkur á því að það sé sandkoli.

Skrápflúran er nokkuð mjórri en ofangreindar tegundir. Hún líkist sandkola að því leyti að roð hennar er hrjúft vegna grófs hreisturs. Skrápflúran er einn útbreiddasti fiskurinn á Íslandsmiðum og lifir hún á mjög breiðu dýptarsviði. Skrápflúran er líklega algengasti flatfiskurinn í Eyjafirði og finnst um allan Fjörðinn. Hinsvegar er hún algengust í dýpri hlutum Fjarðarins gangstætt sandkolanum og skarkolanum.

Lúðan er stærsti beinfiskur Íslandsmiða og einn sá stærsti í heiminum. Hún er hér allt í kringum landið en algengust í hlýja sjónum. Lúðan veiddist oft í Eyjafirði á árum áður, en þar sem lúðustofninum við Ísland hefur hrakað mikið er hún alls staðar orðin mun fágætari en áður fyrr.

Grálúðan er verðmætasta flatfiskategundin á Íslandsmiðum. Hún er einnig frábrugðin öðrum flatfiskum að mörgu leyti. Hún er stór, með stóran kjaft og beittar tennur, enda mikill ránfiskur. Hún er einnig algengust á djúpslóð og er eindreginn kaldsjávarfiskur. Í Eyjafirði finnst hún ekki að staðaldri en veiðist einstaka sinnum. Hún er algeng í álum og köntum fyrir norðan Fjörðinn.

Langlúra (oft kölluð vitsi af sjómönnum vegna enska nafnsins witch flounder) og þykkvalúra (oft kölluð lemmi af sjómönnum vegna enska nafnsins lemon sole) eru nokkuð mikilvægir nytjafiskar hér við land, en nánast allur aflinn er veiddur í hlýja sjónum fyrir sunnan og vestan land. Hér fyrir norðan fást þessar tegundir stöku sinnum en eru sjaldgæfar.

Aðrar flatfiskategundir eru enn sjaldgæfari. Sandhverfan hrygnir ekki við Ísland en flækist oft hingað og hefur sést í Eyjafirði. Hún er afar verðmæt og eru tilraunir í gangi hér á landi með að hafa hana í eldi.

Í raun er það frekar spurning um tíma hvenær flundra mun finnast í Eyjafirði. Hún er mjög nýlegur landnemi (sjónemi?) hér við land og hefur verið að breiðast jafnt og þétt út á síðustu árum. Árið 2009 fannst hún í Skagafirði og spurning hvenær hún veiðist í Eyjafirði. Flundran er nokkuð sérstakur flatfiskur að því leyti að hún kann vel við sig í ferskvatni.

Hreiðar Þór Valtýsson

fiskar 9 20111012 1833276018 Skarkoli (mynd Erlendur Bogason) Skarkoli (mynd Erlendur Bogason)

fiskar 6 20111012 1051410548 Sandkoli (mynd Erlendur Bogason) Sandkoli (mynd Erlendur Bogason)

fiskar 19 20111012 1369611042 Þykkvalúra (mynd Erlendur Bogason) Þykkvalúra (mynd Erlendur Bogason)

fiskar 8 20111012 1607381901 Sandhverfa (mynd Erlendur Bogason) Sandhverfa (mynd Erlendur Bogason)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal