Sea background
Lindýr

Lindýr eru ein stærsta dýrafylkingin í hafinu og allmargar tegundir finnast einnig á landi. Stærstu hópar lindýra eru samlokur (eða skeljar), sniglar og smokkar, en minni hópar eru nökkvar og sætennur. Tegundir úr öllum þessum flokkum hafa fundist í Eyjafirði. Lindýrin eru öll með mjúkan líkama og yfirleitt með harða skel yfir honum sér til varnar. Að öðru leyti eru lindýr afar fjölbreytt í útliti.

Fæðuhættir lindýra eru einnig afar fjölbreyttir. Samlokur eru fyrst og fremst síarar eða grotætur. Sniglar skrapa þörunga af steinum, éta hræ eða eru rándýr á botnföstum dýrum. Smokkarnir eru hraðsynd rándýr á fiskum og öðrum smokkum.

Flest eru lindýrin frekar lítil, smásniglar að sniglast um í fjörunni, eða smáskeljar niðurgrafnar í mjúkan botn. Aðeins fáeinar eru nægilega stórar og í nægu magni til að standa undir veiðum. Tegundir sem hafa verið veiddar hér við land eru kræklingur, kúfskel, hörpudiskur og beitukóngur. Allar finnast þær í Eyjafirði. Nú er það þó einungis kræklingurinn sem er nýttur, reyndar ræktaður. Ein stærsta kræklingaræktunarstöð á Íslandi er í Hrísey. Aðrar stórar og vel ætar tegundir finnast einnig í Eyjafirði, svo sem öðuskel, báruskel og sandskel.

Smokkar eru sjaldséðir í Firðinum en í djúpum álum norðan við Fjörðinn finnast nokkrar tegundir að staðaldri. Stöku sinnum koma smokkfiskagöngur inn í Fjörðinn og er þá yfirleitt um beitusmokk að ræða. Hinn dularfulli risasmokkur hefur einnig fundist í Eyjafirði.

HV

lindyr3 Kræklingur. (Mynd: Erlendur Bogason) Kræklingur. (Mynd: Erlendur Bogason)

lindyr Beitukóngur við eggjaklasann sinn (Mynd: Erlendur Bogason) Beitukóngur við eggjaklasann sinn (Mynd: Erlendur Bogason)

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal