Sea background
Samlokur

Samlokur, eða bara skeljar eru með algengustu lífverum sjávarbotnsins. Þær eru, með fáum undanteningum, lítt hreyfanlegar en verjast óvinum með því að loka sig af í skelinni. Margar þeirra grafa sig líka niður í sand eða leirbotn. Nánast allar samlokur við Ísland lifa á því að sía fæðu úr sjónum og nota til þess fíngerð tálkn.

Nokkrar stórar samlokutegundir finnast við Ísland og eru þær margar hverjar nýttar. Helstu nytjategundirnar við Ísland eru kræklingurinn, hörpudiskurinn og kúskelin. Allar eru þær algengar í Eyjafirði.

Aðrar stórar samlokutegundir í Eyjafirði eru krókskel (Serripes groenlandicum) og báruskel (Cardium ciliatum). Báðar lifa að mestu niðurgrafnar í botnsetið rétt neðar fjörumarka. Þetta eru frekar þykkar skeljar og eru ágætar til átu. Þær eru nýttar víða erlendis þar sem farið er á fjöru og þær krakaðar upp úr botninum með hrífu. Ekki er vitað hversu mikið af þessum tegundum finnst hér né hvort að það borgi sig að nýta þær í hér.

Finna má tómar skeljar fjölmargra samlokutegunda í fjörum, þó eru það einungis kræklingur og sandskel (Mya arenaria) sem þar lifa að jafnað. Sandskelin er síari líkt og kræklingurinn en lífshættir hennar eru þó að öðru leyti gjörólíkir. Sandskelin lifir niðurgrafin í sand- og leirufjörur en teygir langan rana upp á yfirborðið. Hún dælir svo sjónum í gegnum ranann og yfir tálknin þar sem hún síar fæðuagnir úr. Sandskelin varð ekki íslenskur ríkisborgari fyrr en á þessari öld. Erlendis er hún vinsæl til átu en Íslendingar hafa ekki komist upp á lagið með að borða hana. Ef til vill er hér því um framtíðarauðlind að ræða. Smyrslingur (Mya truncata) er náskyldur sandskel og hefur svipaða lifnaðarhætti. Hann er einnig í Eyjafirði en finnst aðeins neðan fjörumarka.

Auk þeirra eru til fjölmargar smærri tegundir sem eru mjög algengar á mjúkum botni við landið. Algengustu smáskeljarnar í Eyjafirði eru líklega gljáhnytla (Nucula tenuis), kolkuskel (Yoldia hyperborea), hrukkubúlda (Thyasira flexuosa) og halloka (Macoma calcarea) sem er einkennistegund Akureyrarpolls. Allar lifa þessar litlu tegundir niðurgrafnar í botnsetið.

Nokkrar samlokutegundir lifa á öllu sérstakara undirlagi. Gluggaskelin (Heteranomia squamula) situr í ójöfnum á steinum, öðrum skeljum eða öðru föstu efni. Bergbúinn (Zirphaea crispata) gengur lengra og borar sig inn í mjúkar steinategundir þannig að einungis raninn stendur út. Drumbmaðkurinn (Teredo megotara), sem er í raun samloka en ekki maðkur grefur sig inn í sokkið timbur, rekavið og trébryggjur. Þeir gátu verið skaðvaldar hér áður fyrr þegar allar bryggjur voru gerðar úr timbri. Nútímabryggjur úr steypu og járni eru hinsvegar nokkuð öruggar fyrir maðkinum.

HÞV

 

HÞV

lindyr 8 20111115 1322160430 Gluggaskeljar á kræklingir (mynd: Erlendur Bogason) Gluggaskeljar á kræklingir (mynd: Erlendur Bogason)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal