Sea background
Lífríki

Uppruni lífs á jörðu er í hafinu og í hafinu bjuggu og þróuðust allar lífverur jarðarinnar í milljónir ára áður en nokkurri þeirra datt í hug að ganga á land. Lífríki hafsins er því geysifjölbreytt. Þar er bæði að finna stærstu dýr jarðarinnar og langlífustu, en einnig aragrúa smásærra lífvera sem sumar hverjar lifa bara í fáa daga.

Fjölmargar tegundir sjávardýra hafa fundist í Eyjafirði, þar með talið bæði sú stærsta í heimi og sú langlífasta. Sennilega finnast þar fleiri tegundir en flestir gera sér grein fyrir. Norðurland er nefnilega á mörkum tveggja heima, tempraða beltisins og kuldabeltisins. Í Eyjafirði finnast því tegundir frá báðum þessum beltum. Þetta veldur því einnig að umhverfissveiflur geta verið miklar og óútreiknanlegar.

Tegundir sem finnast að staðaldri í Eyjafirði eru kannski ekki margar því fjölmargar tegundir sem ella einkenna kaldtempraða og kuldabeltið geta ekki lifað við þessar umhverfissveiflur til lengri tíma. Þær vilja annaðhvort hafa kalt eða heitt, ekki sitt á hvað. Á móti kemur að fjölmargir gestir láta sjá sig reglulega í Firðinum og fer það þá eftir tíðarfari hvort það eru tegundir ættaðar úr Íshafinu eða af suðlægari slóðum.

Lífkerfum er gjarnan skipt upp í fæðuþrep. Í neðsta þrepinu eru þörungar sem geta notað orku frá sólinni til að búa til næringu. Svifþörungar fljóta í efstu lögum sjávar, þeir eru minni en svo að þeir sjáist með berum augum en geta fjölgað sér gríðarmikið ef aðstæður eru réttar. Botnþörungarnir eru hinsvegar fastir við undirlag á grunnsævi og líkjast plöntum á landi.

Dýralífið í hafinu er gjörólikt dýralífi á landi. Fjölmargar dýrategundir í sjó eru til dæmis botnfastar og er því oft ruglað saman við plöntur. Svamparnir líkjast gjarnan mosa á hörðu undirlagi og botnföst holdýr líkjast einna helst blómum þó þau séu í raun skæð rándýr. Skrápdýrin silast um á botninum, stór og áberandi. Það er ekki hægt að finna neitt sambærilegt þeim á landi.

Sumt af því sem gerist í hafinu er líkt því sem gerist á landi, Krabbadýrin í hafinu samsvara til dæmis að mörgu leyti skordýrunum á landi nema bara að krabbadýrin geta orðið miklu stærri. Í hafinu finnast líka fjölmargar ormagerðir, burstaormarnir eru mest áberandi. Lindýr finnast líka bæði á sjó og landi, að vísu eru það bara sniglarnir sem finnast á báðum stöðum. Í sjó eru að auki samlokur og smokkar.

Síðustu flokkarnir eru efstir í fæðukeðju hafsins. Fiskarnir synda um í sjó og ferskvatni og finnast auðvitað ekki á landi. Spendýrin, sem í raun eru afkomendur fiskanna, finnast hinsvegar nánast alls staðar.

HV

hrognkelsi-1-erlendur bogason Rauðmagi (Mynd: Erlendur Bogason) Rauðmagi (Mynd: Erlendur Bogason)

tharaskogur-1-erlendur bogason Þaraskógarnir líkjast að sumu leyti frumskógum hitabeltisins (Mynd: Erlendur Bogason) Þaraskógarnir líkjast að sumu leyti frumskógum hitabeltisins (Mynd: Erlendur Bogason)

saefiflar-hverastryta-igulker-1-erlendur bogason Sæfíflar og marígull á kulnaðri hverastrýtu (mynd Erlendur Bogason) Sæfíflar og marígull á kulnaðri hverastrýtu (mynd Erlendur Bogason)

svampur-6-erlendur-bogason Svampar og þörungar (mynd Erlendur Bogason) Svampar og þörungar (mynd Erlendur Bogason)

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal