Sea background
Skrápdýr

Skrápdýrategundir við Ísland eru svo sem ekki margar, en þær eru flestar stórar og áberandi á sjávarbotninum. Til skrápdýra teljast krossfiskar, ígulker, slöngustjörnur, sæbjúgu og sæliljur.

Skrápdýr draga nafn sitt af kalkflögum sem eru í húð þeirra. Hjá sumum þeirra mynda flögurnar samfellda skel, líkt og hjá ígulkerum. Hjá öðrum, til dæmis sæbjúgum, eru þetta litlar lausar flögur svo að líkaminn er í raun mjúkur. Lífshættir þessara hópa eru mjög ólíkir.

Krossfiskar virðast ekki sérlega grimmdarlegir við fyrstu sýn, þetta er blekkjandi því að þeir eru í raun skæð rándýr sem lifa á öðrum hryggleysingjum, sérstaklega samlokum.

Slöngustjörnur eru náskyldar krossfiskum en mun minni. Þær eru samansettar úr vel afmörkuðum kringlóttum miðjudiski og fimm mjóum, löngum og vel hreyfanlegum örmum út frá honum. Þær éta aðallega botnsetið að því að talið er.

Ígulkerin eru skaðlaus öðrum dýrum, éta þara og leifar af botninum. Þeim getur þó fjölgað mjög mikið við ákveðnar aðstæður og leggjast þá sem engisprettuplága yfir þaraskógana og éta þá niður. Þetta þekkist víða um heim og þar með talið í Eyjafirði

Sæbjúgun geta verið nokkuð fjölbreytileg í útliti en stærsta og algengasta tegundin, brimbúturinn (Cucumaria frondosa), líkist í grundvallaratriðum sláturkepp og er stærðin jafnvel svipuð. Sæbjúgun eru leðurkennd og fremur lin viðkomu ólíkt öðrum skrápdýrum, þess vegna geta þau einnig breytt nokkuð um lögun með því að teygja úr sér eða draga sig saman. Sæbjúgu éta botnset eða sía fæðu úr sjónum.

Sæliljurnar eru frumstæðasti hópur skrápdýra. Þær festa sig við botninn með stilk og sía sjóinn með fimm marggreindum örmum. Þær er einna helst að finna í djúpsjó.

Tvær tegundir skrápdýra hafa verið nýttar hér við land, skollakoppur og brimbútur.

HV

erlendur bogason-30 Sólstjarna (Mynd: Erlendur Bogason) Sólstjarna (Mynd: Erlendur Bogason)

skrapdyr Litlir roðakrossar (Mynd: Erlendur Bogason) Litlir roðakrossar (Mynd: Erlendur Bogason)

erlendur bogason-33 Stóri krossi að éta kúfskel (Mynd: Erlendur Bogason) Stóri krossi að éta kúfskel (Mynd: Erlendur Bogason)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal