Sea background
Smokkar

Smokkarnir eru af allt öðru sauðahúsi en önnur lindýr. Þeir eru ekki með ytri skel eða eitur til varnar en eru þess í stað sterkir og hraðsyndir. Að ýmsu leyti eru þeir þróuðustu hryggleysingjarnir, eru t.d. með mjög þróað taugakerfi, sjón og heila. Kolkrabbar eru einnig þekktir fyrir gáfur og teljast þeir gáfaðastir allra hryggleysingja.

Meginflokkar smokka eru þrír; smokkfiskar (e. squids), kolkrabbar (e. octopuses) og kuggar (e. nautilus) sem eru ólíkir hinum að því leyti að þeir lifa í kuðung. Kuggar finnast eingöngu í heitum sjó og eru því ekki hér við land.

Lífshættir smokkfiska og kolkrabba eru í grundvallaratriðum ólíkir þótt báðir hópar teljist rándýr. Smokkfiskar hafa 10 arma, eru mjög góð sunddýr og lifa gjarnan uppi í vatnsmassanum. Kolkrabbar sem eru með 8 arma, eru hinsvegar ekki eins rennilegir og lifa oftast við botninn og eru aðlagaðir felulífi.

Smokkar eru sérstæðir í dýraríkinu að því leyti að þeir lifa hratt og stutt. Flestar tegundir lifa eingöngu í eitt til tvö ár og engin tegund hrygnir oftar en einu sinni á lífsferli sínum.

Að minnsta kosti fjórtán tegundir smokka hafa fundist við Ísland og þar af hafa sex fundist í Eyjafirði og í Eyjafjarðarál. Beitusmokkurinn (Todarodes sagittatus) er sá eini sem hefur verið veiddur hér við land, þar með talið í Eyjafirði. Beitusmokkurinn lifir líklega í úthafinu suður af landinu og gengur af óþekktum ástæðum upp á grunnsævi sum ár í miklum torfum en lætur ekki sjá sig í mörg ár þess á milli.

Dílasmokkurinn (Gonatus fabricii) hefur einnig fundist í Eyjafirði. Öfugt við beitusmokkinn er dílasmokkurinn ákaflega algengur í úthafinu norðan við Ísland og er hann þar m.a. talinn aðalfæða andarnefja og annarra tannhvala á þeim slóðum.

Risasmokkurinn (Architeuthis dux) er sannur risi og getur orðið um 18 metrar á lengd og slagað hátt í tonn að þyngd. Einungis tröllasmokkurinn (Mesonychoteuthis hamiltoni), sem nýlega fannst við Suðurskautslandið, er stærri og risasmokkurinn er því næststærsta hryggleysingjategundin í heiminum. Mjög lítið er vitað um lifnaðarhætti hans, því að hann lifir að öllu jöfnu á miklu dýpi og hefur ekki, þar til mjög nýlega, sést lifandi við náttúrulegar aðstæður. Nánast allt sem vitað er um risasmokkfiskinn er því fengið með rannsóknum á dauðum eða deyjandi einstaklingum sem rekið hefur á land. Hér við land fannst hann nokkrum sinnum rekinn á síðustu öldum og var honum þá gjarnan lýst sem sjávarskrímsli. Svo skemmtilega vill til að hér við land hefur hann einna oftast fundist rekinn í Eyjafirði og er elsta heimildin um það frá árinu 1790.

Tegundirnar sem að auki hafa fundist í djúpsjónum norðan við landið eru pokasmokkur (Rossia glaucopis), litli kraki (Bathypoliphus arcticus) og bikarsmokkur (Cirroteuthis muelleri) sem er hveljukenndur. Tvær síðastnefndu tegundirnar eru einu alvöru kolkrabbategundirnar sem fundist hafa í nágrenni Eyjafjarðar, hitt eru allt smokkfiskar.

HV

beitusmokkur-01-hreidar-valtysson Beitusmokkur á Fiskideginum mikla á Dalvík (mynd Hreiðar Þór Valtýsson) Beitusmokkur á Fiskideginum mikla á Dalvík (mynd Hreiðar Þór Valtýsson)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal