Sea background
Síld

Síldin er sá fiskur sem einna helst tengist Eyjafjarðarsvæðinu. Það var þó ekki fyrr á seinni hluta 19. aldar sem alvöru síldveiðar hófust við Ísland. Í raun voru það norskir síldveiðimenn sem kenndu okkur þetta. Fyrstu tilraunir þeirra voru í innanverðum Eyjafirði og Seyðisfirði árið 1868.

Síldveiðar hófust svo af alvöru í innanverðum Eyjafirði árið 1881 og má segja að Akureyri sé þannig fyrsti síldarbærinn. Þungamiðja veiðanna færðist svo smám saman utar í fjörðinn og var Siglufjörður aðallöndunarbærinn um 1900. Þó að veiðar hafi á tíðum verið miklar voru þær einnig sveiflukenndar og sum ár eða jafnvel áratugi veiddist nánast ekki neitt. Síldin hefur engu að síður sett varanlegt mark sitt á sögu Eyjafjarðar.

Síldin er í raun ein algengasta fisktegund heimsins og finnast fjölmargir stofnar í Norður-Atlantshafi, þar af voru 3 hér við land. Allir hrundu þeir um 1967.

Sumargotssíldin var fyrst þessara stofna að rétta úr kútnum. Hún heldur sig ætíð innan íslenskrar lögsögu og er fullorðin síld nú aðallega við austur-, suður- og vesturströndina. Norðlenskir firðir eru hinsvegar mikilvægustu uppeldisstöðvarnar. Í Eyjafirði, sérstaklega á Akureyrarpolli, er því ætíð mikið af eins til tveggja ára gamalli smásíld sem oft er kölluð kræða. Þegar hún verður eldri heldur hún annað í fæðuleit og lætur ekki sjá sig hér aftur. Eyjafjörður er því enn mikilvægur í lífsferli sumargotssíldarinnar en veiðar eru takmarkaðar vegna þess að stórsíld er svo til engin.

Norsk-íslenska vorgotssíldin hrygndi við Noregsstrendur en fór í miklum mæli í fæðugöngur á önnur hafsvæði. Sum árin var bókstaflega svartur sjór af þessari síld í fjörðum og flóum en önnur ár lét hún ekki sjá sig. Eftir að stofninn hrundi hélt norsk-íslenski stofninn sig að mestu í norskri lögsögu en hefur á síðustu árum stækkað mikið og ganga lengra og lengra út á hafsvæðið á milli Íslands og Noregs. Góðar líkur eru á að hann eigi í náinni framtíð aftur eftir að lita íslenska firði og flóa aftur svarta. Þetta var stofninn sem einna mest var veitt úr hérlendis fram að hruninu og jafnframt sú stórsíld sem veiddist mest út af Norðurlandi.

Þriðji stofninn við Ísland er íslenska vorgotssíldin. Sá stofn var allstór en hrundi á sama tíma og sá norsk-íslenski og hefur ekki sést síðan.

Hreiðar Þór Valtýsson

sild 1 20111204 1329784691 Síldar (mynd SHA) Síldar (mynd SHA)

sildveidar 1 20111204 1503216150 Síldveiðar á 5. áratugnum (mynd Hreiðar Valtýsson) Síldveiðar á 5. áratugnum (mynd Hreiðar Valtýsson)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal