Sea background
Marglyttur

Marglytturnar (Scyphozoa) eru ólíkar flestum hinna holdýranna vegna þess að hveljustigið er langmest áberandi. Þær eru stærstu svifdýrin og verða oft yfir metri í þvermál. Brennihveljan eða brennimarglyttan (Cyanea capillata) er stærsta marglytta í heiminum og einnig skráð í heimsmetabók Guinness þar sem hún er lengsti hryggleysingi í heimi. Brenniþræðir sem koma niður úr henni geta orðið allt að 37 cm langir. Brennihveljan er algeng í Eyjafirði.

Við Ísland finnast sex til sjö tegundir marglytta og hafa flestar þeirra fundist í Eyjafirði. Engar verulega hættulegar marglyttutegundir finnast í kringum Ísland. Sumar, eins og t.d. brennihveljan, geta þó valdið mjög óþægilegum sviða og jafnvel brunasárum. Bláglyttan (Aurelia aurita) er hins vegar mun algengari og er hún bæði skaðlaus og talsvert minni. Erlendis finnast stórhættulegar hveljutegundir, til dæmis sævespan við strendur Ástralíu sem er með eitruðustu dýrum heimsins og getur verið banvæn mönnum við snertingu.

Líklega valda marglyttur einhverjum skaða á nytjastofnum hér við land með seiðaáti og má einnig ætla að þær éti mikið af öðru svifi sem betur færi í kjaft einhverrar nytjalífveru.

Marglyttur geta einnig valdið miklum skaða í fiskeldi því að þar nær stóri fiskurinn ekki að forða sér frá þeim ef þær eru í miklu magni. Haustið 2002 varð t.d. mikið tjón í laxeldi í Mjóafirði vegna marglytta. Áhrif marglytta á fiskseiði geta þó verið flókin því fiskseiði sækja einnig í að vera nálægt marglyttum svo að þau fái vernd frá stærri rándýrum, t.d. sínum eigin mæðrum.

Hveljustig marglyttunnar er kynþroskastig hennar og þá sleppir hún kynfrumum sem breytast í lirfur. Þessi lirfustig setjast svo til botns og bíða af sér veturinn. Á vorin fer holsepastigið að vaxa og fjölga sér. Á sumrin og haustin þroskast það yfir í hveljustig og losnar frá botni. Marglyttur setja því helst svip sinn á umhverfi sjávar á sumrin og fram á haust.

HV

brennimarglytta-1-erlendur bogason Brennimarglytta (mynd Erlendur Bogason) Brennimarglytta (mynd Erlendur Bogason)

blaglytta-1-erlendur bogason Bláglytta (mynd Erlendur Bogason) Bláglytta (mynd Erlendur Bogason)

 

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal