Sea background
Hiti og selta sjávar

Lágmarkshiti sjávarins rétt utan við fjarðarkjaftinn er um 1°C í febrúar en í byrjun apríl fer að hlýna í sjónum. Við yfirborðið myndast þunnt lag sem verður sífellt heitara og nær hitinn hámarki um 8°C við yfirborðið. Á vorin og yfir sumarið myndast ferskt yfirborðslag sem stafar aðallega af ferskvatnsrennsli frá landi á þeim tíma. Á haustin og yfir veturinn hverfur þetta létta yfirborðslag að mestu leyti og sjórinn verður blandaður niður á mikið dýpi (sjá efri mynd til hægri).

Ef við færum okkur inn á Eyjafjörð og skoðum samskonar breytingar á stað rétt innan við Hjalteyri (neðri mynd til hægri) þar sem dýpi er um 90 m blasir við önnur mynd þótt hún sé svipuð í megindráttum. Lágmarkshitinn er nokkuð lægri en upphitun í yfirborði er örari þó svo að hámarkshitinn sé ekki nema tæpar 9°C. Meiri munur er á seltu og kemur þar til mikið ferskvatnsrennsli til fjarðarins. Yfirborðslagið verður því ferskara og lagskiptingin að sama skapi meiri en gerist utan við fjörðinn.

Eðlisþyngd sjávar ræðst af þremur þáttum, þ.e. hitastigi, seltu og þrýstingi. Hún eykst með aukinni seltu og þrýstingi en minnkar með hærri hita. Á grunnsævi eru áhrif þrýstingsins hverfandi. Í fjörðum þar sem töluverðs ferskvatnsrennslis gætir frá landi, stjórnast eðlisþyngdin yfirleitt af seltunni. Hér við land hafa breytingar í seltu almennt meiri áhrif á eðlisþyngd sjávar en breytingar á hitastigi.

Eðlisþyngd sjávar er afgerandi fyrir ýmis ferli sem eiga sér stað í hafinu, t.d. lagskiptingu og blöndun, sem aftur hafa mikil áhrif á lífið í sjónum, sérstaklega svifþörungana sem þurfa að halda sér í yfirborðslögum til að geta dafnað og fjölgað sér. Einnig hefur dreifing eðlisþyngdar áhrif á strauma, þar sem léttari sjór hefur tilhneigingu til að fljóta ofan á þeim sem þyngri er.

Steingrímur Jónsson

eyjafoerur 12 20111114 1449002011 Hiti og selta sjávar rétt utan við fjarðarkjaftinn á árunum 1992-1993 (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni). Hiti og selta sjávar rétt utan við fjarðarkjaftinn á árunum 1992-1993 (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni).

eyjafoerur 12 20111114 1449002011 Hiti og selta sjávar í miðjum firðinum rétt sunnan Hjalteyrar á árunum 1992-1993 (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni). Hiti og selta sjávar í miðjum firðinum rétt sunnan Hjalteyrar á árunum 1992-1993 (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni).

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal