Sea background
Hitafar

Þegar rætt er um veðurfar er yfirleitt átt við aðstæður í andrúmslofti, s.s. lofthita, úrkomu, loftþrýsting, vinda o.s.frv. Ekki er þó síður viðeigandi að ræða um veðurfar í sjónum og má þá nefna sjávarhita, seltu, strauma og fleiri þætti. Í raun er það svo að fátt hefur meiri áhrif á veðurfar hér á landi en hafstraumarnir umhverfis landið.

Nálægð hafsins veldur því að allar hitasveiflur verða hér minni en ella þar sem mikla orku þarf til að breyta hitastigi þess. Í Grímsey sem er umlukin hafi á alla vegu er árssveifla hitans mun minni en á Akureyri þar sem áhrifa sjávarins gætir töluvert minna (sjá mynd hér til hægri).

Meðalhiti vetrarmánaðanna er lægri á Akureyri en í Grímsey en sumarmánuðirnir eru töluvert hlýrri á Akureyri. Á Akureyri er júlí hlýjastur en í Grímsey er það ágúst og má einnig skýra það með áhrifum frá hafinu því sjórinn er lengur að kólna en landið og hann er yfirleitt heitastur við strendur Íslands í ágúst.

Hafrannsóknastofnunin hefur staðið fyrir mælingum á yfirborðshita sjávar við Grímsey og Hjalteyri frá árinu 1987. Í megindráttum sýna þær mælingar svipaða niðurstöðu og lofthitamælingarnar í Grímsey og á Akureyri. Meðalhitinn við Hjalteyri er 0,8°C hærri en meðalhiti sama tímabils í Grímsey. Við Hjalteyri er lágmarkshitinn lægri en í Grímsey en aftur er hámarkshitinn hærri og árstíðasveiflan því meiri við Hjalteyri.

Meðalhiti sjávar í Eyjafirði er nokkru hærri en lofthitinn nema yfir sumarmánuðina maí til ágúst. Því kælir hafið andrúmsloftið á sumrin en vermir það að vetrarlagi. Þegar sjórinn er kaldari en loftið getur myndast þoka vegna þess að þá þéttist rakinn í loftinu þegar það kólnar við snertingu við sjóinn. Af þessum sökum eru þokur óalgengar að vetrarlagi en tíðari yfir vor- og sumarmánuðina.

Annað fyrirbæri er svokallaður frostreykur sem verður til þegar mjög kalt loft streymir yfir mun heitari sjó. Þá mettast kalda loftið af gufu úr sjónum og hitnar, en þegar það stígur upp kólnar það aftur og gufan þéttist og verður að þoku og er þá engu líkara en að það rjúki úr sjónum.

Sveiflurnar í lofthita eru miklu meiri en í sjávarhitanum, bæði milli daga og eins yfir lengri tíma s.s. vikur og mánuði. Þetta stafar af því að miklu meiri orku þarf til að breyta hitastigi sjávar en andrúmslofts en allt að 3.000 sinnum meiri orku þarf til að hita einn rúmmetra af sjó um 1°C en samsvarandi rúmmál af lofti. Þess má geta að frostmark sjávar með seltu 35, en það svarar til þess að í 1 kg af sjó séu 35 g af söltum, er -1,9°C, og sjórinn verður því ekki kaldari en það.

Steingrímur Jónsson

eyjafoerur 1 20111114 1937765916 Lofthiti á Akureyri og í Grímsey á árunum 1931-1960. Einnig er sýndur lofthiti á Akureyri á árunum 1961-1990. Meðalhiti yfir allt tímabilið er sýndur í sviga (gögn frá Veðurstofu Íslands). Lofthiti á Akureyri og í Grímsey á árunum 1931-1960. Einnig er sýndur lofthiti á Akureyri á árunum 1961-1990. Meðalhiti yfir allt tímabilið er sýndur í sviga (gögn frá Veðurstofu Íslands).

eyjafoerur 4 20111114 1557439928 Yfirborðshiti sjávar við Hjalteyri og í Grímsey á árunum 1987-1996. Meðalhiti yfir allt tímabilið er sýndur í sviga (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni). Yfirborðshiti sjávar við Hjalteyri og í Grímsey á árunum 1987-1996. Meðalhiti yfir allt tímabilið er sýndur í sviga (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni).

eyjafoerur 3 20111114 1496712944 Dagsmeðaltöl af lofthita á Akureyri og yfirborðshita sjávar við Hjalteyri á árunum 1992-1993 (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni og Veðurstofu Íslands). Dagsmeðaltöl af lofthita á Akureyri og yfirborðshita sjávar við Hjalteyri á árunum 1992-1993 (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni og Veðurstofu Íslands).

eyjafoerur 5 20111114 1055561508 Mánaðarleg frávik í yfirborðshita sjávar við Hjalteyri og í Grímsey frá meðaltali áranna 1987-1996. Grænu ferhyrningarnir gefa til kynna að gögn séu ekki til (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni). Mánaðarleg frávik í yfirborðshita sjávar við Hjalteyri og í Grímsey frá meðaltali áranna 1987-1996. Grænu ferhyrningarnir gefa til kynna að gögn séu ekki til (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni).

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal