Sea background
Vindar

Vindar eru ein af meginorsökum hafstrauma, ekki síst á grunnsævi. Vindurinn veldur krafti á yfirborð sjávarins og flytur hann til. Óbein áhrif skipta ekki minna máli því vindar skapa þrýstingsmun með því að flytja sjóinn til, hækka sjávarborðið á einum stað og lækka á öðrum.

Þessa þrýstingsmunar gætir í allri vatnssúlunni og hefur hann áhrif á strauma á öllum dýpum. Vindar hafa einnig áhrif á lóðrétta blöndun sjávar og skiptir það gríðarlegu máli fyrir þörungagróðurinn og lífsskilyrði hans.

Vindmælingar voru gerðar í Hrísey á árunum 1992–1993. Þar eru þrjár meginvindáttir algengastar. Norðanátt er tíðust, en suðsuðaustan innan úr firði og vestsuðvestan ofan úr Svarfaðardal gætir einnig nokkuð. Þetta sýnir að vindáttin stjórnast að mestu leyti af landslaginu, sérstaklega fjöllunum við fjörðinn sem skýla fyrir ýmsum áttum en vindurinn á greiða leið niður dalina.

Ef vindáttin í Grímsey er skoðuð yfir sama tímabil kemur í ljós miklu jafnari dreifing sem stafar af því að Grímsey er á opnu hafi og þar gætir ekki áhrifa fjalla og annarra ójafna í landslaginu. Þó eru sumar vindáttir algengari en aðrar en það stjórnast fremur af þeim veðrakerfum sem ríkjandi eru við landið.

Steingrímur Jónsson

eyjafoerur 8 20111114 1157461664 Tíðni vindátta í Hrísey og Grímsey. 0° tákna að vindur blási úr norðri, 90° úr austri o.s.frv. Fyrir Grímsey er tíðnin einungis reiknuð á 30° fresti en á 10° fristi fyrir Hrísey (gögn frá Veðurstofu Íslands). Tíðni vindátta í Hrísey og Grímsey. 0° tákna að vindur blási úr norðri, 90° úr austri o.s.frv. Fyrir Grímsey er tíðnin einungis reiknuð á 30° fresti en á 10° fristi fyrir Hrísey (gögn frá Veðurstofu Íslands).

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal