Sea background
Dýpi og botnlögun

Í mynni fjarðarins er dýpi um 150–200 m og eykst það enn til norðurs þar sem við tekur Eyjafjarðaráll sem er framhald Eyjafjarðar. Eyjafjarðaráll sker norðlenska landgrunnið allt þar til hann opnast út í vestari hluta Íslandshafs vestan við Kolbeinseyjarhrygg og er þá orðinn um 500 m djúpur. Eyjafjarðaráll er mestur og dýpstur þeirra ála sem ganga inn í íslenska landgrunnið. Vestan hans eru Haganesdjúp og Skagafjarðardjúp en að austan Grímseyjarsund milli Grímseyjar og lands. Landgrunnið úti fyrir Norðurlandi er fremur breitt, víðast yfir 100 km.

Út af  Arnarnesnöfum er dálítill þröskuldur í firðinum, um 75 m djúpur. Þar fyrir innan er djúp og er þar mest dýpi um 110 m rétt sunnan við Hjalteyri í svokölluðum Bakkaál.

Segja má að annar þröskuldur sé á milli Hríseyjar og Árskógssands og er  þröskuldsdýpi þar rúmlega 30 m. Þessi þröskuldur ásamt Hrísey, Lönguboða og Hrólfsskeri skiptir ytri hluta fjarðarins í tvo hluta. Má líta á þann vestari sem framhald Svarfaðardals en sá eystri er framhald Eyjafjarðar.

Þykk setlög á botni fjarðarins vitna um langa sögu setmyndunar  og er botninn yfirleitt þakinn leir eða sandi. Setlögin, sem eru að meðaltali 150-180 m þykk, fylla fjörðinn að ákveðnu dýpi og gera það að verkum að botninn verður tiltölulega flatur þó svo að það dýpki á honum eftir því sem utar dregur. Almennt eru hlíðar fjarðarins brattar niður að setlögunum en þar fyrir neðan er botninn flatur. Tvö grunn eru í firðinum, Hörgárgrunn og Laufásgrunn, og er Laufásgrunn mun víðáttumeira. Þau eru mynduð af framburði ánna sem þar renna í sjó fram, Hörgá og Fnjóská. Einnig eru miklar leirur við útrennsli Eyjafjarðarár en þegar þeim sleppir er dýpið á Pollinum innan við Oddeyri um 40 m.

Út af Ystuvíkurfjalli eru þrjár hverastrýtur þar sem dýpi er 60–70 m og nær sú hærri þeirra upp á tæplega 15 m dýpi. Úti fyrir Arnarnesi er svo einnig strýtusvæði. Það svæði er mun stærra, en strýturnar þar eru ekki eins háar.

Steingrímur Jónsson

eyjafj depth 1 20111114 1495024077 Dýpi í Eyjafirði með 50 metra millibili. Dýpi í Eyjafirði með 50 metra millibili.

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal