Sea background
Spendýr

Flest spendýr lifa á landi, en á því eru þrjár meginundantekningar því hvalir, selir (eða hreifadýr) og sækýr hafa nánast fullkomlega aðlagast lífi í sjó. Sækýr finnast nú einungis í hitabeltinu en seli og hvali er að finna um allan heim. Margar tegundir bæði hvala og sela hafa sést í Eyjafirði.

Sjávarspendýr eru eins og önnur spendýr með heitt blóð og þurfa að koma upp á yfirborð til að anda. Það er því við ýmsa örðugleika að etja að lifa í köldum sjónum. Á móti kemur að það er afar heppilegt að vera með heitt blóð í köldum sjó, því að þá er hægt að halda efnaskiptahraða jöfnum, á meðan efnaskiptahraði dýra með kalt blóð sveiflast með umhverfinu. Flest sjávarspendýr eru með þykkt spiklag sem þjónar því meginhlutverki að einangra líkamann frá köldum sjónum.

Þessi einangrun virkar reyndar það vel að sjávarspendýr eru afar algeng á kaldari svæðum heimsins. Algengustu selategundir heimsins er til dæmis að finna við hafísröndina við bæði heimskautin. Hafísröndin er að öllu jöfnu talsvert norður af Íslandi og eru selir því ekki sérlega algengir hér miðað við þegar norðar dregur. Þessar norrænu tegundir sjást þó oft við Ísland, og þá oftast við Norðurland. Aðeins tvær selategundir teljast alíslenskar, landselurinn og útselurinn. Hinsvegar heimsækja fimm norrænar tegundir landið reglulega.

Hvalir finnast líka við heimskautin, og eru nokkrar tegundir sérhæfðar til heimskautalífs. Algengustu og stærstu tegundirnar eru hinsvegar fjölliðaðastar þar sem kaldir og heitir hafstraumar mætast í kaldtempraða beltinu. Margar tegundir halda sig þó á suðrænum slóðum yfir veturinn.

Ísland liggur einmitt á mörkum kaldra og hlýrra hafstrauma og eru Íslandsmið því einstakleg hvalaauðug, miðað við flest önnur hafsvæði jarðar. Bæði eru tegundirnar margar og fjölliðaðar. Að minnsta kosti 12 hvalategundir finnast að staðaldri á Íslandsmiðum, 5 tegundir skíðishvala og 7 tegundir tannhvala, þar með talið hnísa og höfrungar. Að auki hafa 11 aðrar tegundir sést hér.

Mjög margar hvalategundir hafa einnig sést í Eyjafirði, en vegna þess að hvalir eru yfirleitt úthafsdýr þá eru mestar líkur á að sjá þá utarlega í Firðinum.

HV

spendyr Hnúfubakur (Mynd: Tryggvi Sveinsson) Hnúfubakur (Mynd: Tryggvi Sveinsson)

spendyr2 Hrefna á stökki. (Mynd: Árni Halldórsson) Hrefna á stökki. (Mynd: Árni Halldórsson)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal