Sea background
Selir

Selir og rostungar, ásamt sæljónum sem ekki finnast hér við land, teljast til hreifadýra, en það er undirættbálkur innan rándýra. Forfeður hreifadýranna voru landrándýr sem voru skyldust björnum.

Hér við Ísland kæpa tvær selategundir; útselur (Halichoerus grypus) og landselur (Phoca vitulina). Báðar íslensku tegundirnar eru sjaldgæfar í Eyjafirði miðað við marga aðra staði hér við land. Líklega er það vegna mikils þéttbýlis í Eyjafirði.

Útselur kæpir ekki í Eyjafirði og er afar sjaldgæfur, en þekkt landsellátur eru við ósa Fnjóskár, á Hrólfsskeri og við Gjögur. Einna helst er hægt að rekast á landseli á Pollinum yfir sumartímann og eiga þeir þá jafnvel til að synda langt upp eftir Eyjafjarðará veiðimönnum til mikillar armæðu.

Selafjölbreytnin glæðist nokkuð yfir vetrartímann. Íslensku selirnir halda þó gjarnan lengra út á haf og sjást því sjaldnar. En þá fara farselir úr Norðurhöfum hinsvegar að sjást. Þessar tegundir eru mjög algengar við ísröndina í Norður-Íshafinu og kæpa þar flestar. Yfir veturinn færa þessir selir sig gjarnan sunnar og eru þeir alltíðir gestir við norðurströnd Íslands.

Selategundir þessar eru vöðuselur (Pagophilus groenlandica), blöðruselur (Cystophora cristata), hringanóri (Pusa hispida), kampselur (Erignathus barbatus) og rostungur (Odobenus rosmarus).

Fyrr á öldum gátu komur farsela að ströndum lands skipt sköpum fyrir íbúa Norðurlands, enda komu þeir oft síðla vetrar og snemma vors þegar farið var að ganga á matarforðann og hungrið farið að sverfa að. Þeir voru því kærkomin búbót í erfiðu árferði því, í þá daga, voru kreppur yfirleitt árferðinu að kenna og komu ekki bara við pyngju fólks heldur líka maga.

Margar sagnir eru til um veiðar á farselum í Eyjafirði fyrr á öldum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar, sem gefin var út 1772, er getið um veiðar á vöðusel sem var annaðhvort skutlaður úr árabátum eða rotaður á ís. Í Íslandslýsingu Nikolai Mohr sem kom út 1786 er bæði getið um skutulveiði og netaveiði á vöðusel, en einnig hvernig hringanóri var rotaður á ís alveg inni í fjarðarbotni þegar fjaraði undan ísnum. Í Ferðabók Ólavíusar frá 1776 er þess einnig getið að hringanóri fáist nokkuð í net í Laufás-, Svalbarðs og Grýtubakkasóknum.

Íslendingar hafa aldrei veitt farseli á skipulagðan hátt við hafísröndina, þar sem ganga má að þeim vísum. Hinsvegar hafa Norðmenn stundað þar umfangsmiklar veiðar í langan tíma, jafnvel þótt styttra sé á selmiðin héðan frá Íslandi en frá Noregi. Við Akureyringar verðum stundum varir við þessi selveiðiskip þegar þau koma hingað til að taka vistir eða fara í viðgerð. Þessar veiðar hafa þó minnkað mikið á síðustu árum enda ekki hægt að halda þeim úti nema með ríkisstyrkjum.

Hreiðar Þór Valtýsson

tari 12 20111012 1868389569 Í fjarska sést selur yfir þaraskóginum, líkleg landselur (mynd Erlendur Bogason) Í fjarska sést selur yfir þaraskóginum, líkleg landselur (mynd Erlendur Bogason)

spendyr 1 20111127 1119746350 Ungur landselur við Ytri vík (mynd Esko Pettay) Ungur landselur við Ytri vík (mynd Esko Pettay)

spendyr 3 20111127 1197147945 Blöðruselur við Grenivík (mynd Gunnar B. Aspar) Blöðruselur við Grenivík (mynd Gunnar B. Aspar)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal