Sea background
Ystuvíkurstrýtur

Tilvist neðansjávarhverastrýta í Eyjafirði var fyrst staðfest árið 1990 á dýptarmælum á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni. Þetta var einnig í fyrsta skiptið í heiminum sem staðfest var að neðansjávarhverastrýtur væri að finna á grunnslóð.

Þetta eru þrjár strýtur á um það bil 65 metra dýpi norðvestur af Ystuvík. Þeim var því gefið nafnið Ystuvíkurstrýturnar. Einungis ein þeirra er virk og er það jafnframt sú stærsta. Hún teygir sig um 45 metra frá botni og er því tindur strýtunnar um 20 metra undir haffletinum. Til samanburðar þá er Hallgrímskirkja 75 metra há.

Strýturnar eru nú friðlýst náttúruvætti samkvæmt reglugerð frá umhverfisráðuneytinu. Friðlýsingin felur í sér bann við togveiðum, netalögnum og línuveiðum við strýturnar og á jaðarsvæði þeirra. Einnig er óheimilt að kasta akkeri innan marka náttúruvættisins. Til rannsókna og sýnatöku við þær þarf sérstakt leyfi. Heimilt er að kafa niður að hverastrýtunum og skoða þær, en ekki má hrófla við þeim eða valda á þeim spjöllum.

Jarð- og örverufræði stýtanna var rannsökuð árin 1997 og 1998 og var þá fyrst farið niður að þeim, bæði af kafara og í litlum kafbát. Strýturnar líkjast að mörgu leyti djúpsjávarstrýtum en eru úr magnesíumríkum kísilleir en ekki anhydríti (gert úr kalsíumsúlfati) eins og djúpsjávarstrýturnar. Vatnið sem kemur frá strýtunum er um 72°C heitt og er það nánast alveg ferskt og á því uppruna sinn í landi.

HV

ystuvikurstryturnar-1-erlendur bogason Kafarar við topp stærstu ystuvíkurstrýtunnar (mynd Erlendur Bogason) Kafarar við topp stærstu ystuvíkurstrýtunnar (mynd Erlendur Bogason)

 

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal