Sea background
Neðansjávarhverir

Neðansjávarhverastrýtur fundust fyrst árið 1977 nærri Galapagos eyjum á um 2500 metra dýpi. Verið var að rannsaka botngerð á svæðinu með fjarstýrðum kafbát. Lítið líf er á svo miklu dýpi í úthöfunum. Því kom mjög á óvart þegar mjög auðugt vistkerfi fannst tengt jarðhitavirkninni.

Neðansjávarhverirnir mynda miklar útfellingar, þannig að strýtur eða strompar verða til og allt umhverfið verður því mjög fjölbreytt og undarlegt að sjá. Vistkerfið þessi í djúpsjó eru einstök að því leyti að þau er óháð sólarljósi um orku, en byggja í stað þess á örverum sem efnatillífa orkurík efnasambönd úr hverunum.

Ýmsar stærri lífverur svo sem ormar, samlokur og rækjur, lifa svo í miklu magni þarna og éta þá annaðhvort bakteríuskánir eða eru í sambýli við örverurnar. Flestar þessara stærri lífvera eru háðar þessu vistkerfi og hafa ekki fundist annars staðar. Djúpsjávarstrýturnar mynda því nokkurskonar vin í annars tegundasnauðri eyðimörk djúphafsins.

Nú er ljóst að djúpsjávarstrýtur eru alls ekki jafn sjaldgæfar og áður var talið. Rannsóknir á strýtunum og lífríki þeirra eru þó erfiðar og kostnaðarsamar vegna þess hve djúpt þær eru.

Gagnstætt djúpsjávarhverunum hafa grunnsjávarhverir lengi verið þekktir, og finnast þeir víða. Þeir hafa hinsvegar ekki vakið jafn mikla athygli vegna þess að lífríki við þá er ekki jafn sérstakt og við djúpsjávarhverina og vegna þess að þar til nýlega höfðu strýtumyndandi svæði ekki fundist á grunnslóð. Yfirleitt eru þeir því ekkert sérstakir að sjá.

Hverir hafa verið Íslendingum vel kunnir allt frá landnámi. Menn hafa einnig vitað í nokkurn tíma að hveri er að finna í fjörum. Á síðustu árum hafa hverasvæði einnig verið að finnast dýpra. Fyrstu hverirnir fundust við Kolbeinsey á um 100 m dýpi. Við Steinhól á Reykjaneshrygg hafa fundist hverir á um 350 m dýpi og austan Grímseyjar á um 400 m dýpi. Af þessum svæðum eru hverastrýturnar í Eyjafirði einstakar vegna þess hve aðgengilegar þær eru.

HV

arnarnesstrytur-krossfiskur-1-erlendur bogason Uppstreymi af heitu vatni á Arnarnesstrýtunum (mynd Erlendur Bogason) Uppstreymi af heitu vatni á Arnarnesstrýtunum (mynd Erlendur Bogason)

ystuvikurstryturnar-2-erlendur bogason Toppur stærstu Ystuvíkurstrýtunnar (mynd Erlendur Bogason) Toppur stærstu Ystuvíkurstrýtunnar (mynd Erlendur Bogason)

 


 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal