Sea background
Arnarnesstrýtur

Strýturnar norður af Arnarnesi fundust í ágúst 2004 við kortlagningu hafsbotnsins i nágrenni Arnarness. Fjölgeisladýptarmælingar með Baldri, rannsóknarskipi Landhelgisgæslunnar, sýndu langa röð strýtulega myndana á hafsbotninum.

Þessar strýtur liggja á um 500 m langri línu með stefnu rétt austan við norður. Dýpi í nágrenni strýtanna er um 25 m þar sem grynnst er, en um 50 m þar sem dýpst er. Fáum dögum eftir að strýturnar voru kortlagðar var kafað niður á grynnstu strýturnar og staðfest að jarðhiti var mikill á svæðinu. Strýturnar við Arnarnes nefnast nú einu nafni Arnarnesstrýtur.

Arnarnesstrýturnar eru talsvert frábrugðnar Ystuvíkurstrýtunum skammt frá. Aðalmunurinn felst í því að Arnarnessvæðið er bæði grynnra og mun stærra og er í raun samsett af fjölmörgum strýtum af ýmsum stærðum. Einnig er þarna að finna sprungur sem heitt vatn kemur upp um.

Það sem Ystuvíkurstrýturnar hafa fram yfir Arnarnesstrýturnar er að þær eru mun hærri. Líklega er hæð strýtanna takmörk sett af öldugangi, rof vegna öldugangs kemur í veg fyrir að þær nái að vaxa nær yfirborði en um 15 metra. Ystuvíkurstrýturnar eru á meira dýpri og vaxa því hærra áður en rof vagna öldugangs stöðvar vöxt þeirra. Erfitt er að spá fyrir um aldur strýtanna, en vísbendingar eru um að einstakar strýtur geti vaxið hratt (marga cm á mánuði).

Vistkerfið í kringum Arnarnesstrýturnar er mun fjölbreyttara en við Ystuvíkurstrýturnar. Líklega er það vegna þess að svæðið er stærra og býður upp á meiri fjölbreytileika í umhverfi. Þarna er mikið að finna af botnföstum dýrum svo sem hveldýrum, mosadýrum, svömpum, sæfíflum og kræklingi. Einnig er mikið af rauðþörungum á grynnri svæðunum.

Svæðin beint fyrir ofan útstreymi eru þó svo til ber, því að vatnið hefur mælst um 78°C heitt og því einungis á færi harðgerðustu örvera að lifa í snertingu við það. Í kringum strýturnar og inn á milli þeirra hafa svo sést fjölmargar fisktegundir, svo sem steinbítar, sprettfiskar, hrognkelsi, þorskar, ýsur og ufsar. Allar eru þessar tegundir þó tiltölulega algengar í firðinum og því óljóst hvort þær hafa einhvern hag af nábýli við strýturnar.

HV

A video from 2004, shortly after the vents were discovered
A video from 2012

arnarnesstrytur-nasa-1-erlendur bogason Vísindamaður frá NASA að prófa tækjabúnað við Arnarnesstrýturnar (mynd Erlendur Bogason)) Vísindamaður frá NASA að prófa tækjabúnað við Arnarnesstrýturnar (mynd Erlendur Bogason))

arnarnesstrytur-2-erlendur-bogason Nokkrar strýtur við Arnarnes (mynd Erlendur Bogason) Nokkrar strýtur við Arnarnes (mynd Erlendur Bogason)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal