Sea background
Sharks

Hákarlar eða háfiskarnar eru efsta þrepið í fæðukeðju hafsins því flestir þeirra eru öflugir ránfiskar. Tuttugu tegundir hafa fundist hér við land og eru helstu tegundirnar beinhákarl (Cetorhinus maximus), hámeri (Lamna nasus), hákarl (Somniosus microcephalus) og háfur (Squalus acanthias). Þetta eru einnig einu háfiskarnir sem fundist hafa í Eyjafirði. Allar verða þessar tegundir þó, nema hákarlinn sjálfur, að flokkast sem frekar sjaldgæfir flækingar.

Háfurinn er líklega algengast háfiskurinn við Ísland en hann er hins vegar sjaldgæfur í kalda sjónum og þar með í Eyjafirði. Hann finnst bæði við botn og uppi í sjó Hann er einnig þekktur fyrir að ferðast víða.

Hámerin er sú íslenska hákarlategund sem einna helst líkist hinum klassíska hákarl. Hún er rennileg og með stórar tennur. Hún lifir hins vegar að mestu leyti á uppsjávarfiskum og hefur aldrei, svo vitað sé til, ráðist á menn.

Beinhákarlinn er næststærsti fiskur jarðar, aðeins hvalhákarlinn er stærri. Beinhákarl sést reglulega á Íslandsmiðum en afar lítið er vitað um lífsferil hans. Báðir eru þessir risahákarlar friðsælar svifætur.

Hákarlinn sjálfur er kuldaþolnasta háfategund heimsins og sú eina sem finnst að staðaldri í hafinu norðan Íslands. Þetta er stór tegund og nær háum aldri. Hann er botnfiskur en fer samt talsvert upp um sjó. Hann étur nánast hvað sem að kjafti kemur og er frægur mathákur. Í maga hans hefur fundist flest það sem í sjónum finnst auk ýmissa landdýra, s.s. katta, hunda, hesta og hreindýra. Ekki þarf þó að óttast hákarla á landi því þetta hafa verið hræ sem ár hafa líklega borið út í sjó. Í Eyjafirði hefur fundist hákarl með stóran sel og fjórtán væna þorska í maganum.

Hákarlinn hefur verið veiddur við Ísland frá alda öðli. Á 19. öldinni og í byrjun þeirrar 20. var hann reyndar ein mikilvægasta nytjategundin við Ísland, sum ár líklega sú mikilvægasta.

Hákarlinn var veiddur lifrarinnar vegna en í henni er mikið af olíu sem var aðalverðmætið. Samkeppni við ódýrari hvalaolíu og hráolíu varð til þess að hákarlaveiðarnar lögðust að mestu af á endanum. Nú til dags veiðist smáræði sem aukaafli við aðrar veiða, það er verkað í „þorrahákarlinn“.

Fyrr á öldum og allt fram á fyrri hluta 20. aldar voru hákarlaveiðar mikilvægustu veiðar Norðlendinga og settu mark sitt á búsetu á svæðinu. Í Eyjafirði voru hákarlaveiðar sérstaklega mikilvægar á 19. öldinni og voru m.a. undirstaða þess að mikil skútuútgerð var stundið frá Firðinum. Hákarlasjómennirnir voru hetjur hafsins á þessum tíma og ber þar helst að nefna Hákarla-Jörund frá Hrísey.

Frekari upplýsingar: Enska Wikipedia, íslenska wikipedia, Icelandic fisheries

Hreiðar Þór Valtýsson

hafiskar 1 20111217 1859595683 Háfur í dönskum sjávardýragarði (mynd Hreiðar Þór Valtýsson) Háfur í dönskum sjávardýragarði (mynd Hreiðar Þór Valtýsson)

hafiskar 3 20111217 1429916582 Hámeri á Fiskideginum mikla á Dalvík (mynd Hreiðar Þór Valtýsson) Hámeri á Fiskideginum mikla á Dalvík (mynd Hreiðar Þór Valtýsson)

hafiskar 2 20111217 1125488092 Beinhákarl (mynd Hreiðar Þór Valtýsson) Beinhákarl (mynd Hreiðar Þór Valtýsson)

 


The Fisheries Science Center | University of Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Tel: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | E-mail: hreidar(hjá)unak.is

Design / Programing / Hosting - ArcticPortal