Sea background
Rækjur

Fjölmargar rækjutegundir finnast við Ísland, en einungis ein er veidd, stóri kampalampinn (Pandalus borealis). Þó veiðist litli kampalampi (P. montaqui) stundum lítillega sem meðafli.

Stóri kampalampinn er algengur á 50 til 500 m dýpi, og er mest af honum í köldum sjó. Á tíðum hefur verið mikið af honum í Húnaflóa, Skagafirði, Skjálfanda og Öxarfirði, en af einhverjum óútskýrðum ástæðum er hann lítið í Eyjafirði. Hann er þó alltaf til staðar þar, en ekki í veiðanlegu magni. Eina undantekningin var árið 1996 þegar tæplega 50 tonn voru veidd í Eyjafirði.

Kampalampar eru sérstakir að því leyti að þeir eru tvíkynja, eru karldýr fyrstu æviárin en breytast svo í kvendýr þegar þeir þroskast. Misjafnt er eftir svæðum hvenær þetta gerist, en yfirleitt á 3. til 5. aldursári.

Aðrar rækjutegundir sem hafa fundist í Eyjafirði eru marþvari (Sclerocrangon boreas), pólrækja (Lebbeus polaris), litla rækja (Eualus pusiolus), kampalampabróðir (Pandalus propinquus), noregsrækja (Pontophilus norvegius), sabíns rækja (Sabinea septemcarinata), axarrækja (Spirontocaris lilljeborgii) og þornrækja (Spirontocaris spinus). Fjórar síðastnefndu tegundirnar hafa einungis fundist á sviflirfustigi. Af þessum tegundum er litla rækja sennilega algengust en hún er einnig smæst.

Rækjurnar halda sig að öllu jöfnu neðan fjörumarka og sumar þeirra, t.d. stóri kampalampinn, halda sig eingöngu í djúpum álum Fjarðarins.

Norðan við Eyjafjörð, á meira dýpi, finnst svo gaddþvari (Sclerocrangon ferox), stórvaxin og vel brynvörð tegund. Ísrækja (Hymenodora glacialis) lifir þar einnig en hún lifir að mestu í vatnsmassanum meðan gaddþvarinn er eindregið botndýr. Ísrækjan er eldrauð að lit og skel hennar er mjög mjúk, ólíkt þvörunum. Ísrækja er mjög mikilvæg fæða fyrir grálúðu og þorsk norðan Íslands. Glerrækjan (Sergestes arcticus) finnst einnig í uppsjónum norðan við landið. Hún er mjög hliðarflöt en getur orðið nokkuð stór. Glerrækjan er af mjög fornum stofni tífótakrabba og í raun mjög fjarskyld öðrum rækjum sem minnst hefur verið á hér að ofan.

HV

raekja-1-erlendur bogason Lítil ógreind rækja (mynd Erlendur Bogason) Lítil ógreind rækja (mynd Erlendur Bogason)

raekja-2-erlendur-bogason Litli kampalampi (mynd Erlendur Bogason) Litli kampalampi (mynd Erlendur Bogason)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal