Sea background
Krabbar

Algengustu eiginlegu krabbarnir hér við land eru litli trjónukrabbi (Hyas coarctatus) og stóri trjónukrabbi (H. araneus). Þeir eru nauðalíkir í útliti en sá stóri verður miklu stærri eins og nafnið gefur til kynna. Báðir finnast allt í kringum landið og eru algengir í Eyjafirði. Sá litli finnst allt frá fjöruborði niður á nokkur hundruð metra dýpi en útbreiðsla þess stóra er takmörkuð við grunnsævi.

Gaddakrabbi (Lithodes maia), hefur einnig fundist í Eyjafirði. Þetta er stór og glæsilegur krabbi sem, eins og nafnið bendir til, er alsettur stórum göddum. Hann heldur sig að öllu jöfnu á djúpu vatni en slæðist inn í Eyjafjörðinn annað slagið.

Margar aðrar krabbategundir finnast hér við land en eingöngu í hlýja sjónum. Dýra- og plöntutegundir eru hinsvegar sífellt að nema ný landsvæði og hverfa frá öðrum. Krabbar hafa sérstaklega verið í sviðsljósinu af þessum orsökum, því nýjar tegundir eins og töskukrabbi (Cancer pagurus) og grjótakrabbinn (C. irroratus) hafa verið að nema land við Ísland en hafa hingað til aðeins fundist í hlýja sjónum.

Ýmsar krabbategundir finnast á kaldari svæðum heimsins þar sem aðstæður og sjávarhiti eru í raun svipaðar og við Norðurland. Af einhverjum ástæðum, líklega þeim að lirfurnar eru ekki nógu lengi á sviflægu stigi, þá berast krabbar ekki auðveldlega á milli hafsvæða.

Við Grænland í vestri er snjókrabbi (Chionoecetes opilio) algengur og mikilvæg nytjategund og í austri hefur hinn risastóri kóngakrabbi (Paralithodes camtschaticus) gert innrás niður eftir strönd Noregs. Hann hefur einnig öðlast heimsfrægð vegna þess að hann er tegundin sem sjómenn í raunveruleikaþáttunum „Deadliest catch“ eru einna helst að sækjast eftir.

Þessir krabbar hafa ekki enn fundist við Ísland en gætu birst hér einn góðan veðurdag og mundu þá líklega þrífast vel í Eyjafirði. Vert er að hvetja alla til að láta vita ef þeir finna óvenjulegar krabbategundir í Firðinum.

Í Eyjafirði finnast einnig litlir frændur eiginlegu krabbanna. Kuðunga- eða einbúakrabbi (Eupagurus pubescens) er með linan og viðkvæman afturbol. Til þess að verjast óvinum treður hann sér inn í tómar kuðungaskeljar sem hann ber svo með sér. Talið var að kuðungakrabbar drepi ekki endilega snigilinn til að komast í kuðunginn, heldur taka kuðunginn til eigin nota þegar fyrri eigandi er dauður af öðrum orsökum. Sést hefur þó til kuðungakrabba þar sem þeir virðast vera að reyna að drepa hinn réttmæta eiganda.

Tenglingurinn (Munida rugosa) er skyldur einbúakrabbanum og finnst líka í Eyjafirði. Hann er með harðan afturbol og notar því ekki kuðunga sér til varnar. Hann líkist einna helst litlum humri.

Krabbar eru allir tækifærissinnaðir í fæðuvali, en lifa mikið á hræjum. Áhugi hefur annað slagið blossað upp á að nýta þessa tegund en lítið hefur orðið úr.

Hreiðar Þór Valtýsson

krabbadyr 4 20111115 1738160637 Trjónukrabbi og sandmaðkshraukar (mynd Erlendur Bogason) Trjónukrabbi og sandmaðkshraukar (mynd Erlendur Bogason)

krabbadyr 5 20111115 1493171109 Einbúakrabbi (mynd Erlendur Bogason) Einbúakrabbi (mynd Erlendur Bogason)

krabbar2 3 20111115 1616233311 Tenglingur (mynd Erlendur Bogason) Tenglingur (mynd Erlendur Bogason)

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal