Sea background
Rauðþörungar

Rauðþörungar (rhodophyta) eru tegundaauðugasti flokkur þörunga. Þeir eru þó ekki stórir og yfirleitt ekki áberandi. Rauðþörungar eru nokkuð merkilegir fyrir þær sakir að þetta er mjög forn flokkur lífvera. Mjög fjarskyldir bæði plöntum og dýrum.

Rauðþörunga er nánast eingöngu að finna í sjó. Þeir eru sérstaklega algengir neðan við þaraskógana því þeir geta nýtt takmarkað sólarljós betur en aðrir botnþörungar.

Bygging rauðþörunga er yfirleitt fremur einföld, oft himnur eða þræðir. Þar sem brims gætir, er til dæmis purpurahimnu (Porphyra umbilicalis) helst að finna. Hún virðist heldur ólöguleg á þurru en breiðir úr sér þegar flæðir yfir og myndar fallega rauða himnu eða blævæng.

Aðrar tegundir eru flóknari í byggingu, svokallaðir kalkþörungar (Corallinacea) mynda til dæmis kalkstoðgrind líkt og kóraldýr. Þeir eru rauðir þegar þeir eru lifandi en kalkið verður hvítt þegar þörungurinn drepst. Yfir lengri tíma mynda þessir kalkþörungar þykk setlög úr kalki. Setlög þessi finnast víða á grunnsævi hér við land og er t.d. nýlega hafin vinnsla kalkþörunga í Arnarfirði.

Rauðþörungar eru margir hverjir vel ætir. Ber þar helst að nefna söl (Palmaria palmata) en einnig fjörugrös (Chondrus crispus) og fyrrgreinda purpurahimnu.

Sölin voru mikilvæg fæða fyrir forfeður okkar og þóttu jarðir sem höfðu aðgang að sölum sérstaklega verðmætar. Reyndar eru Íslendingasögurnar elstu heimildirnar fyrir þaraáti á Vesturlöndum.

Verulega hefur dregið út neyslu á sölum á síðustu öld, sem er eiginlega synd og skömm því að þetta er afar hollur matur. Þörungar hafa hinsvegar verið notaðir til manneldis í Austurlöndum í árþúsundir og eru þar til óteljandi afurðir af þörungum. Vegna austrænna áhrifa hefur þaraát sem betur fer verið að aukast á ný hér við land. Þarinn sem notaður er í sushi réttum er til dæmis rauðþörungur.

Hreiðar Þór Valtýsson

thorungar 3 20111115 1227927901 Söl (mynd Erlendur Bogason) Söl (mynd Erlendur Bogason)

tari 21 20111012 1399349911 Rauðþörungar (mynd Erlendur Bogason) Rauðþörungar (mynd Erlendur Bogason)

raudthorungar ofl erlendur bogason 1 20111119 1310339097 Kalkþörungar (þetta rauða) geta myndað skán á botninum eins og hér (mynd Erlendur Bogason) Kalkþörungar (þetta rauða) geta myndað skán á botninum eins og hér (mynd Erlendur Bogason)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal