Sea background
Þörungablóminn

Til að fjölga sér þurfa svifþörungar tvennt, næringarefni og sólarljós. Sólarljós er bara að finna við yfirborð sjávar en mest er af næringarefnum í djúpsjó. Þetta er grundvallarvandamál í hafinu því mjög víða veldur skortur á næringarefnum því að þörungar geta ekki fjölgað sér. Á kaldari svæðum heimsins, eins og hér við land er hins vegar ákveðið ferli í gangi sem veldur því að næringarefnin berast reglulega upp að yfirborðinu og framleiðni hafsins er því mikil.

Yfir veturinn er of lítil birta til að þörungar geti fjölgað sér. Hinsvegar er nóg af næringarefnum í sjónum því kalt loftið kælir yfirborðslag sjávar. Yfirborðssjórinn verður því eðlisþyngri og sekkur. Næringarríkur djúpsjór kemur þá upp í staðinn. Hann kólnar þá og sekkur líka og svo koll af kolli. Af þessum ástæðum á sér stað mikil blöndun í hafinu yfir vetrartímann.

Snemma á vorin þegar sól fer að rísa aftur og þörungarnir fara að geta ljóstillífað eru því næg næringarefni til staðar í yfirborðlögum sjávar. Nokkur lagskipting myndast einnig vegna þess að loft fer að hlýna og vegna ferskvatnsstreymis frá vorleysingum í landi. Það er nauðsynlegt fyrir svifþörunga svo þeir geti haldist í yfirborðslaginu. Á þessum tíma verður því gríðarleg fjölgun á tiltölulega stuttum tíma.

Þessi fjölgun er árviss viðburður á þeim breiddargráðum sem við búum á og er kölluð vorblómi þörunganna. Í Eyjafirði er vorblóminn yfirleitt seint í mars. Fyrir utan Fjörðinn, á Grímseyjarsundi, er hann töluvert seinna á ferðinni eða um mánaðamótin apríl-maí. Þetta stafar af því að inni í Firðinum verður sjórinn fyrr lagskiptur og þörungarnir ná þ. a. l. fyrr að halda sér í nægri birtu nálægt yfirborðinu.

Þegar blóminn hefur náð hámarki ganga næringarefni í yfirborðslaginu til þurrðar og það tekur fyrir vöxt þörunganna. Einnig eru svifdýr komin á kreik sem éta þörungana. Þess vegna helst þörungamagnið yfirleitt lágt yfir sumarið. Það er eingöngu ef blöndun á sér stað og næringarríkur sjór úr dýpri lögum kemst upp og blandast sjónum í yfirborðinu að einhver veruleg fjölgun þörunga getur orðið. Þetta gerist einkum ef vindar blása kröftuglega að sumarlagi, en sérstaklega á haustin þegar sjórinn fer að kólna, vindar ágerast, blöndun eykst og næringarefni berast úr dýpri lögum sjávar.

Kísilþörungarnir eru fljótastir að bregðast við þegar sólarljós er orðið nægjanlegt en þeir þurfa mikið af næringarefnum. Þeir eru algengastir í vorblómanum þegar nóg er af bæði sólarljósi og næringarefnum. Yfir sumarið þegar næringarefni skortir almennt eru skoruþörungar oft algengari. Skoruþörungarnir geta hreyft sig og kemur það þeim vel á sumrin þegar efri lög sjávar eru næringarsnauð. Á næturnar synda þeir einfaldlega niður í neðri lög sjávar til að ná sér í næringarefni þar. Á daginn halda þeir sig hinsvegar við yfirborðið til að ljóstillífa.

HV

Microcystis_aeruginosa Blágrænþörungurinn Microcystis_aeruginosa (mynd Friðbjörn Möller) Blágrænþörungurinn Microcystis_aeruginosa (mynd Friðbjörn Möller)

thorungar-nitrat Styrkur nitrats og magn þörunga á Grímseyjarsundi og við Hrísey (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni). Styrkur nitrats og magn þörunga á Grímseyjarsundi og við Hrísey (gögn frá Hafrannsóknastofnuninni).

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal