Sea background
Svampar

Svampar eru dýr, en líkjast þó afar lítið öðrum dýrum. Þeir eru frumstæðustu fjölfrumudýrin, nokkurs konar millistig þess að vera sambýli einfrumunga og fjölfrumulífverur. Þeir hafa ekki nein eiginleg líffæri eða vefi og einungis örfáar sérhæfðar frumugerðir. Að þessu leyti þeir frábrugðnir öllum öðrum fjölfrumudýrum.

Svampar geta ekki hreyft sig með nokkrum hætti og líkjast einna helst skán eða gróðri. Sumar tegundir eru uppreistar og líkjast plöntum. Allir svampar eru síarar.

Áður fyrr voru baðsvampar búnir til úr ákveðnum tegundum svampa. Þetta væri hinsvegar meiriháttar varasamt með íslenska svampa þar sem þeir eru allir með aragrúa hárfínna nála í holdi sínu sem geta ert húð okkar illa. Svampar verja sig líka með efnahernaði og hafa mörg þessara efna vakið athygli líftækniiðnaðarins.

Það er mjög erfitt að greina svampa til tegunda því bæði geta einstaklingar innan hverrar tegundar verið mjög ólíkir og einnig eru margar tegundir líkar. Þarf þá oft sérfræðing til að greina innri byggingu í smásjá, t.d. gerð stoðgrindar og nála.

Fjölmargar svampategundir finnast í Eyjafirði og eru þeir oft áberandi á hörðum botni en ekki er unnt, að svo stöddu, að greina svampana í Eyjafirði til tegunda.

Hreiðar Þór Valtýsson
svampur-1-erlendur bogason Svampur (mynd Erlendur Bogason) Svampur (mynd Erlendur Bogason)

svampur-2-erlendur-bogason Svampur (Mynd: Erlendur Bogason) Svampur (Mynd: Erlendur Bogason)

svampur-3-erlendur-bogason Svampur (Mynd: Erlendur Bogason) Svampur (Mynd: Erlendur Bogason)

 

 

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal