Sea background
Vængsniglar

Vængsniglar eru skyldir bertálknum en eru ólíkir öðrum sniglum vegna þess að þeir lifa í svifinu en ekki á botninum. Í svifinu skiptir mestu máli að vera léttur á sér og hafa svifsniglar því annaðhvort losað sig við kuðunginn eða þá að hann er mjög þunnur og léttur.

Marflugan (Clione limacina) er einna sérstökust, hún er alveg án skeljar, með nokkurskonar vængi og getur orðið nokkuð stór (1-8 cm). Vængdoppan (Limacina helicina) og svifbobbin (L. retroversa) eru miklu minni (< 7 mm) en eru ennþá með örþunnan kuðung. Þeir eru líka með nokkurskonar vængi til að svífa með í sjónum. Stundum var þetta nefnt brúnáta þegar mikið var um vængsnigla í síldarmögum hér fyrr á tíðum. Marflugan og vængdoppan eru kaldsjávarlífverur og eru þar af leiðandi algengastar norðan og austan við landið þar sem sjór er kaldastur. Svifbobbinn þarf hinsvegar hlýrri sjó. Tegundir þessar finnast einnig á suðurhveli jarðar og eru þetta því miklir heimsborgarar.

Allar þessar tegundir hafa fundist í Eyjafirði og varð síðast vart við mikið af marflugum í nóvember 2012.

Samlífi þessar tegunda er nokkuð sérstakt því marflugan lifir nánast eingöngu á hinum tveimur. Hinir tveir lifa hinsvegar á svifþörungum sem þeir veiða með slímneti sem þeir éta svo ásamt því sem í því er. Marflugur þurfa þó ekki að örvænta ef þær finna ekki fæðu því þær geta svelt sig í allt að eitt ár ef ekkert er í boði. Á ensku kallast marflugan „sea angel“ eða „sea butterfly“ sem er afar viðeigandi.

Meiri upplýsingar

Arctic Ocean diversity - Pteropods

HÞV

marfluga 1 20121229 1464431257 marfluga í víðsjá (mynd: Bjarni Eiríksson) marfluga í víðsjá (mynd: Bjarni Eiríksson)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal