Sea background
Kræklingur og aða

Kræklingur eða bláskel (Mytilus edulis) er mjög algengur hér við land og finnst í flestum fjörum við Ísland þar sem fast undirlag er að finna. Hann er algjör grunnsjávar og fjörutegund og hangir á límþráðum á föstu undirlagi, t.d. fjörusteinum eða bryggjustólpum, og er því oft á þurru við lágflæði. Hann síar fæðu (aðallega svifþörunga) úr sjónum.

Kræklingur er góður til matar og er nú til dags oft týndur úr fjörum til slíks brúks. Varast ber þó að éta hann á sumrin og haustin því þá geta eiturefni borist í hann frá eitruðum svifþörungum sem hann nærist á. Þessi eiturefni hreinsast þó aftur úr kræklingnum. Ef til vill er það af þessum sökum sem hann hefur ekki verið nýttur að ráði hérlendis þar til nýlega. Sú undantekning er þó á að hann var notaður til beitu hér áður fyrr.

Nýlega hafa tilraunir með kræklingarækt hafist hér við land. Þar eru sérstök bönd látin hanga niður úr belgjum sem fljóta í yfirborðinu, lirfur kræklingsins safnast þar fyrir og vex kræklingurinn svo á böndunum,. Víða erlendis eru ostrur mjög mikilvægar sjávarnytjar. Þær finnast hinsvegar ekki hér við land. Það má segja að kræklingurinn taki við hlutverki ostra hér. Ostrur og kræklingar eru bæði mikilvirkir síarar. Víða erlendis hafa mikil vandamál skapast þegar ostrurnar voru ofveiddar. Sjór gruggast þá upp sem hefur víðtæk og slæm áhrif á allt lífríkið. Samlokur sjá því um hreinsunarstörf í lífríkinu.

Öðuskel (Modiolus modiolus) er mjög lík kræklingi í útliti en talsvert stærri. Hún finnst einnig allt í kringum landið. Lífshættir þeirra eru svipaðir (enda náskyld) en öðuskelin heldur sig að öllu jöfnu dýpra, neðan fjörumarka. Aðan hefur verið hirt af köfurum og selt í veitingahús þar sem hún hefur notið nokkurra vinsælda.

HÞV

lindyr 7 20111115 1935409218 Kræklingar á útbrunni hverastrýtu (mynd: Erlendur Bogason) Kræklingar á útbrunni hverastrýtu (mynd: Erlendur Bogason)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal