Sea background
Liðormar

hafinu er að finna margar fylkingar orma, þetta er því afar vel heppnað líkamsform. Flestar eru fylkingarnar þó fáliðaðar eða ormarnir örlitlir. Liðormarnir eru undantekning þar á, þeir eru fjölliðaðir og margir hverjir stórir. Ef maður finnur orm í hafinu eru því langmestar líkur á að það sé liðormur.

Helstu flokkar liðorma eru blóðsugur eða iglur (hirudinea) sem eru sjaldgæfar í sjó, ánamaðkar (oligochaeta) sem finnast í sjó en eru þar litlir og veimiltítulegir og að lokum burstaormar (polychaeta) sem eru afar algengir í sjó og margir hverjir stórir og áberandi. Burstaormarnir eru því hinir sönnu sjávarormar.

Helsta einkenni burstaorma eru fóttotur eftir öllum líkamanum og burstar á þeim. Bæði fóttoturnar og burstarnir geta verið af ýmsum stærðum og gerðum eftir tegundum.

Í grófum dráttum má skipta þeim í tvo meginflokka. Frítt lifandi ormar skríða um á botninum í leit að fæðu á meðan rörormarnir búa sér til rör af einhverju tagi sem þeir lifa svo í allt sitt líf. Rör þessi geta verið af margvíslegu tagi.

Lífshættir þeirra og útlit geta annars verið mjög fjölbreytt. Sumar tegundir eru einfaldar í útliti líkt og ánamaðkar, en aðrar líkjast ormum lítið. Margir burstaormar sía sjóinn með greindri netkórónu á hausnum, þar sem fæðuagnir festast og berast svo til munnsins. Aðrir éta botnsetið sjálft, því að í því er talsvert af lífrænum leifum. Enn aðrir eru rándýr. Flestir lifa burstaormarnir á botninum, en þó eru til sviflægar tegundir.

Burstaormar eru mikilvæg fæða fyrir ýmsa nytjafiska okkar, t.d. ýsu og flatfiska. Burstaormar hafa ekki verið nýttir hér á landi, nema heimildir geta um að þeim hafi verið safnað sem beitu.

Burstaormar eru ásamt samlokunum algengustu lífverurnar á mjúkum botni í Eyjafirði. Tegundirnar eru allmargar og getur verið erfitt að greina á milli þeirra.

HV

lidormar 2 20111115 1738692607 Hreisturbakur. (Mynd: Erlendur Bogason) Hreisturbakur. (Mynd: Erlendur Bogason)

krabbadyr 4 20111115 1738160637 Trjónukrabbi og sandmaðkshraukar í baksýn. (Mynd: Erlendur Bogason) Trjónukrabbi og sandmaðkshraukar í baksýn. (Mynd: Erlendur Bogason)

 

 

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal