Sea background
Holdýr

Holdýr eru næstfrumstæðasti flokkur dýra á eftir svömpum. Þau hafa sérhæfð líffæri og vefi ólíkt svömpum en eru að öðru leyti einföld.

Holdýr eru af ýmsum stærðum en í grundvallaratriðum bara af tveimur gerðum. Annaðhvort eru þau botnfastur sepi sem líkist einna helst blómi eða sviflæg hvelja sem líkist einna helst fallhlíf. Mörg holdýr fara í gegnum bæði þessi stig á lífsferli sínum.

Marglytturnar eru þekktustu holdýrin. Þær eru sviflægar, þ.e. lifa í vatnsmassanum. Marglytturnar lifa reyndar sem botnlæg sepastig til að byrja með en umbreytast síðan yfir í sviflæga stigið. Þetta gerist aðallega á haustin og eru þær því algengastar þá.

Margar tegundir holdýra eru botnlæg. Þekktust þeirra eru hveldýr, kóraldýr og sæfíflar. Kóraldýr og sæfíflar eru náskyldir hópar en meginmunurinn er sá að kóraldýr eru lítil og lifa í sambýli, á meðan sæfíflar eru stórir og einstaklingssinnaðir. Við tengjum kóraldýrin yfirleitt við kóralrifin í hitabeltinu en þau eru einnig til hér við land og á djúpsævi geta þau myndað víðáttumikil kóralrif.

Holdýr eru öll rándýr sem éta það sem snertir fálmara þeirra. Á fálmurunum eru eitraðar stingfrumur sem drepa bráðina. Varasamt er því að snerta holdýr með berum höndum, því að þótt íslensk holdýr séu ekki það öflug að þau geti drepið mann þá geta þau valdið mjög miklum sársauka. Í hlýjum sjó eru til tegundir sem eru banvænar mönnum.

Holdýr eru ekki borðuð hér á landi, né í hinum vestræna heimi. Í Austurlöndum eru marglyttur hinsvegar borðaðar.

HV

tHoldyr Holdýr í Eyjafirði af öllum stærðum og gerðum, sæfíflar og hveldýr á botninum, brennimarglytta svífandi yfir (Mynd: Erlendur Bogason) Holdýr í Eyjafirði af öllum stærðum og gerðum, sæfíflar og hveldýr á botninum, brennimarglytta svífandi yfir (Mynd: Erlendur Bogason)

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal