Sea background
Fjaran

Lífríki fjörunnar er best þekkt af búsvæðum sjávar þó að þar lifi í raun aðeins örfáar þeirra tegunda sem sjóinn prýða. Ástæða þess að fjaran er kunnust er auðvitað sú að þetta er aðgengilegasti hluti sjávarins fyrir okkur landkrabbana.

Fjörurnar eru einnig fjölbreyttar að gerð, allt frá leirum til brimasamra klettafjara. Klettafjörur er helst að finna á nesjum þar sem ágangur sjávar skolar burt lauslegu seti. Malarfjörur, sem eru einna útbreiddastar, eru þar sem skjólsælla er en leirufjörur eru við ósa stóráa þar sem mikið set berst frá ánum. Þar safnast fyrir fíngert set úr árframburði. Þessar fjörugerðir skapa mismunandi aðstæður fyrir lífverur og er tegundasamsetning því mjög misjöfn.

Fjörur eru nokkuð mismunandi milli landsvæða. Nánast öll suðurströndin er sendin og brimasöm. Þar er lítið líf því lífverur eiga erfitt um vik með að athafna sig á síbreytilegum sandinum. Fjölbreyttar fjörur eru við Austur- og Norðurland, þó er þar mest um klettafjörur. Tegundafjölbreytni er hinsvegar ekki sérlega mikil þar sem sjór er kaldur og færri tegundir finnast að jafnaði í köldum sjó en hlýjum.

Önnur ástæða fyrir tegundafábreytni í eyfirskum fjörum er að þar er fremur lítill munur á flóði og fjöru og fjörur því mjóar. Lífauðugustu fjörur landsins er að finna við Vesturland, þar sem sjór er fremur hlýr, mikið um grunnsævi og sker, og munur á flóði og fjöru er mikill. Þar er einnig að finna stærstu leirurnar, sem eru sérstaklega mikilvægar fyrir vaðfugla við Ísland.

Fleiri lífverutegundir finnast utarlega í Firðinum en innarlega. Þessi munur er sennilega að stórum hluta vegna áhrifa ferskvatns. Flestar sjávarlífverur þola illa eða alls ekki lága seltu og fæstar ferskvatnslífverur þola saltvatn, þannig að tiltölulega fáar tegundir geta hafst við þar sem þessir tveir heimar mætast.

HV

fjoruthari Bóluþang í fjöru. (Mynd: Tryggvi Sveinsson) Bóluþang í fjöru. (Mynd: Tryggvi Sveinsson)

fjorudyr Ýmis dýr finnast innan um þangið, hér eru nákuðungar, kræklingur og hrúðukarlar. (Mynd: Tryggvi Sveinsson) Ýmis dýr finnast innan um þangið, hér eru nákuðungar, kræklingur og hrúðukarlar. (Mynd: Tryggvi Sveinsson)

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal