Sea background
Þorskur

Þorskurinn (Gadus morhua) er langmikilvægasta nytjadýr Íslandsmiða. Ef frá eru talin eitt og eitt ár þegar hákarl og síðar síld voru efnahagslega mikilvægari hefur þorskurinn að stóru leyti staðið undir íslensku efnahagslífi frá örófi alda. Vegna stærðar stofnsins og græðgi hefur þorskurinn einnig mikil áhrif á aðrar sjávarlífverur við Ísland.

Þorskurinn er að jafnaði algengasti fiskurinn í Eyjafirði. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvort einn eða fleiri þorskstofna sé þar að finna. Sumir telja að um að minnsta kosti þrjá stofna fullorðins þorsks sé að ræða:

Einn er staðbundinn. Það eru litlir fiskar eftir aldri því þeir vaxa hægt vegna takmarkaðs fæðuframboðs í Firðinum.

Annar stofn hrygnir á grunnsævi við Norðurland á vorin en heldur svo á dýpri slóðir í fæðuleit og sést því lítið í Firðinum á öðrum árstímum. Einstaklingar í þessum stofni vaxa hraðar en fjarðarþorskurinn.

Þriðji stofninn er svo hinn hefðbundni stofn sem stendur undir megninu af þorskveiðum hér við land. Fiskar í þessum stofni vaxa hraðast og þeir hrygna við Suður- og Suðvesturland. Egg og seiði rekur svo norður fyrir land og þeir alast að hluta til upp á norðlensku hafsvæði fram að kynþroska en halda svo burt þaðan á fæðuslóðir fyrir vestan og austan land. Sum ár gengur þessi fiskur aftur inn í Fjörðinn en önnur ár lætur hann ekki sjá sig.

Ekki er hægt að komast því hve stofnarnir eru margir í raun nema með ítarlegum rannsóknum. Það má vel hugsa sér að um erfðafræðilega aðgreinda stofna sé að ræða en ekki er ólíklegt að þetta sé allt einn og sami stofninn, lífshættir eru aðeins mismunandi vegna mismunandi umhverfisaðstæðna sem þeir alast upp við.

Þorskinn má annars finna um allan Eyjafjörð, en minnsta fiskinn er yfirleitt að finna grynnst. Þorskseiðin eru reyndar sviflæg frá því þau klekjast á vorin og fram á haust þegar þau leita til botns. Eftir það halda þau sig svo á skjólsælum stöðum fyrsta árið, til dæmis í þaraskógunum sem ná mest niður á um 20 m dýpi. Seiðin eru það lítil á fyrsta ári og eiga það marga óvini að þau hugsa fyrst og fremst um að vera ekki étin. Þegar þau stækka fara þau svo að verða framfærnari. Stærstu þorskarnir, sem geta verið meira en 1 m á lengd eiga sér svo fáa náttúrulega óvini (það er þá helst maðurinn) en éta aftur mikið af smáfiskum, þar með talið sín eigin afkvæmi.

HV

fiskar 4 20111012 1554267848 Þorskar á sundi yfir þaraskógi (Mynd: Erlendur Bogason) Þorskar á sundi yfir þaraskógi (Mynd: Erlendur Bogason)

fiskar 1 20111115 1654418457 Þorskar (mynd Erlendur Bogason) Þorskar (mynd Erlendur Bogason)

thorskseidi1 1 20111116 1329684424 Þorskseiði (mynd Erlendur Bogason) Þorskseiði (mynd Erlendur Bogason)

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal