Sea background
Mjúkur botn

Megnið af hafsbotninum utan fjörunnar og grunnsævisins er sand- eða leðjubotn. Þar eru stórvaxnar botnlífverur ekki áberandi og ekki að finna neinar botnfastar lífverur. Við fyrstu sýn getur botninn jafnvel virst lífvana Ef grannt er skoðað finnast þó mörg dýr niðurgrafinn í efstu lögum botnsins sjálfs eða í rörum sem þau búa sjálf til úr botnsetinu. Margar lífveranna á þessu búsvæði lifa á groti, en það eru lífrænar leifar sem geta verið af ýmsum uppruna, til dæmis komnar með framburði áa, eða frá dauðum lífverum úr yfirborðslögum sjávar. Önnur botndýr, sérstaklega samlokur sía fæðu úr sjónum og hreinsa hann því í raun.

Niðurgrafnir burstaormar umturna botnsetinu reglulega og auka þannig súrefnisflæði þess og auðvelda aðgang annarra lífvera að næringu (það sama og ánamaðkar gera í garðinum okkar). Botnlífverurnar skipta því veigamiklu máli í vistkerfi hafsins.

Meira líf er gjarnan í leðjubotni en sandbotni þar sem meira er af lífrænum leifum þar. Hinsvegar geta lífverur lifað dýpra í sandinum, þar sem súrefni getur þar borist dýpra. Mest er þó lífið á skeljasandsbotni, en mismunandi lögun skeljabrotanna gera það að verkum að búsvæðið verður fjölbreytt.

Fjölmargir fiskar þrífast best yfir mjúkum botni. Flatfiskar og skötur eru sérstaklega aðlöguð lífinu þar. Þessir fiskar geta jafnvel grafið sig aðeins niður í botninn til að leynast. Þeir gera það bæði til að sitja fyrir bráð og til að vera ekki étnir sjálfur. Ýsan er einnig að mestu leyti háð mjúkum botni þar sem hún nær í mest af fæðu sinni, til dæmis burstaormum og litlum samlokum.

HV

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal