Sea background
Hafsbotninn

Fjölbreytileiki sjávarlífsins sést einna best við hafsbotninn. Þar er að finna lífverur með hið margbreytilegasta atferli og útlit. Sumar lifa niðurgrafnar alla ævi en aðrar eru fastar á steinum og þarablöðkum. Sumar hreyfa sig silalega eftir botninum á meðan aðrar eru snöggar í hreyfingum.

Fæðuöflunarleiðir botndýra eru einnig fjölbreytilegar. Þau eru svifætur, setætur, hræætur, þörungaætur, sníkjudýr eða rándýr.

Þótt heildarlífmassinn sé minni en í svifinu er fjölbreytni tegunda mun meiri á botninum. Þetta stafar af því hve fjölbreytt búsvæði hann býður upp á.

Búsvæði sjávar eru mjög mismunandi og fer það mikið eftir botngerð hvaða lífverur þrífast þar. Á klapparbotnum er gjarnan mjög auðugt og fjölbreytt lífríki. Þari er áberandi á grunnsævi, en möttuldýr, svampar, sæfíflar og margar fleiri botnfastar lífverur á dýpra vatni. Kórala er einnig að finna á hörðum botni hér við land, þó eingöngu í djúpsjó. Þessum botndýrum er gjarnan ruglað saman við gróður því að á landi, þar sem við þekkjum best til eru dýr ekki föst við undirlagið. Slíkt er eingöngu háttur plantna á landi. Í sjó er þó mjög algengt að dýr festi sig við undirlagið. Á hörðum botni er einnig að finna ýmsa stærri og hreyfanlega hryggleysingja botnsins, svo sem krossfiska, ígulker og krabba.

Megnið af hafsbotninum utan fjörunnar og grunnsævis er mjúkur botn, þ.e. úr sand eða leðju. Þar er ekki að sjá eins margar lífverur, reyndar getur hann virst alveg lífvana við fyrstu sýn. Þetta er þó villandi þar sem fjölmargar lífverur lifa niðurgrafnar í setinu.

HV

botndyr Botndýralífið er mjög fjölbreytt, hér eru nokkur botndýr sem eru algeng í Eyjafirði. Lindýr; 1. beitukóngur, 2. kræklingur, 3. hafkóngur, 4. klettadoppa, 5. kolkuskel, 6. sandskel, 7. olnbogaskel, 8. hörpudiskur, 9. nökkvi. Skrápdýr; 10. stórkrossi, 11. skollakoppur, 12. slöngustjarna. Burstaormar; 13. leiruskeri, 14. kambormur, 15. hreisturbakur. Krabbadýr; 16. þanggeit, 17. þanglús, 18. hrúðurkarl, 19. fjörufló. Botndýralífið er mjög fjölbreytt, hér eru nokkur botndýr sem eru algeng í Eyjafirði. Lindýr; 1. beitukóngur, 2. kræklingur, 3. hafkóngur, 4. klettadoppa, 5. kolkuskel, 6. sandskel, 7. olnbogaskel, 8. hörpudiskur, 9. nökkvi. Skrápdýr; 10. stórkrossi, 11. skollakoppur, 12. slöngustjarna. Burstaormar; 13. leiruskeri, 14. kambormur, 15. hreisturbakur. Krabbadýr; 16. þanggeit, 17. þanglús, 18. hrúðurkarl, 19. fjörufló.

 

 

 


Sjávarútvegsmiðstöðin | Háskólinn á Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Sími: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | Tölvupóstur: hreidar(hjá)unak.is

Hönnun / Forritun / Hýsing - ArcticPortal